Harry Bretaprins mun í dag koma fram opinberlega í fyrsta sinn eftir að hann og eiginkona hans, Meghan Markle, tilkynntu að þau ætli að segja sig frá öllum konunglegum skyldum.
Meghan og Archie litli verða ekki með í för þar sem þau eru stödd í Kanada og mun Harry því mæta einn síns liðs þegar hann stýrir drætti í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í ruðningi sem fram fer á Englandi á næsta ári. Drátturinn fer fram í Buckingham-höll.
Sem kunnugt er ætla þau Harry og Meghan að breyta hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar, hætta að sinna konunglegum skyldustörfum og dvelja bæði í Kanada og á Bretlandi á „umbreytingartímabili“ sem hefur hlotið blessun Elísabetar Englandsdrottningar, sem þó sagðist frekar hafa kosið að hafa hjónin áfram við konungleg skyldustörf.
Á viðburðinum í dag mun Harry hitta fulltrúa 21 lands sem tekur þátt í mótinu ásamt því sem börn munu leika listir sínar í ruðningi í hallargarðinum.
Getgátur hafa verið þess efnis að Harry muni fljúga til Kanada til Meghan og Archie eftir viðburðinn í dag en samkvæmt heimildum BBC á prinsinn bókaða nokkra fundi í heimalandinu á næstu vikum.