Kvikmyndadagarnir Nordisk Film Fokus verða að þessu sinni haldnir í samstarfi við nýju hátíðina Reykjavík Feminist Film Festival dagana 16.-19. janúar. Dagskráin í Norræna húsinu setur fókusinn á norræna kvenleikstjóra og sjálfsmynd sem viðfangsefni. Sýndar verða nýlegar norrænar kvikmyndir og boðið upp á umræður við leikstjóra myndanna og aðra fulltrúa þeirra. Ef þig langar að gera eitthvað mjög skemmtilegt um helgina án þess að það kosti peninga þá ættir þú að sjá þessar tvær myndir.
Fyrst ber að nefna Maria’s Paradise sem er finnsk mynd eftir leikstjórann Zaida Bergroth. Viðstödd sýningu myndarinnar er Satu-Tuuli Karhu, sem leikur eitt aðalhlutverkanna.
„Munaðarleysinginn Salome er þjónustustúlka og fylgjandi Maria Åkerblom, sem er karismatískur leiðtogi sértrúarsafnaðar. Þegar Salome eignast uppreisnargjarna vinkonu og byrjar að efast verður Maria hættuleg. Kvikmyndin er innblásin af sönnum atburðum,“ segir um myndina en hún er sýnd í kvöld kl. 21.30.
Hin myndin er sænsk og heitir Beyond Dreams og er leikstýrt af Roida Sekersöz.
„Mirja er nýsloppin úr fangelsi og getur varla beðið eftir að komast loks í burtu með vinkonum sínum og skilja við ömurlegt líf í úthverfinu Alby í Stokkhólmi. Þær vilja fara til Montevideo, sem allra fyrst. En fjöldi vandamála bíður Mirju heima. Móðir hennar er atvinnulaus, keðjureykjandi og veik og það er ekkert til í ísskápnum fyrir litlu systurina að grípa í. Mirja þarf vinnu sem fyrst en hvernig getur hún samrýmt hefðbundið vinnulíf án þess að fórna vinkonunum og þeirra sameiginlegu draumum?“