Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson snýr aftur í Söngvakeppnina 2020. Tíu lög keppa í ár og keppnin hefst þegar fyrri undanúrslitin fara fram í Háskólabíói hinn 8. febrúar en þá munu fyrri fimm lögin keppa. Seinni undanúrslitin fara fram 15. febrúar en þá verða seinni fimm lögin flutt.
Auk Daða eru fleiri þekktir keppendur, þar á meðal hljómsveitin DIMMA, Elísabet Ormslev, Hildur Vala og Matti Matt. Daði Freyr er að sjálfsögðu keppninni vel kunnugur en hann lenti í öðru sæti þegar Svala Björgvinsdóttir vann árið 2017.
Tvö lög úr hvorri undankeppni komast áfram í úrslitin í gegnum símakosningu almennings. Það verða því fjögur lög sem keppa til úrslita í Laugardalshöll 29. febrúar þegar framlag Íslands til Eurovision-söngvakeppninnar verður valið. Framkvæmdastjórn keppninnar hefur þó sem fyrr möguleika á að bæta við einu lagi í úrslitin, svokölluðu „wildcard“ eða „eitt lag enn“ eins og það er kallað í keppninni.
Kynnar í keppninni verða þau Björg Magnúsdóttir, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson.
Almenningi gefst sem fyrr kostur á að vera á staðnum en miðasala hefst fimmtudaginn 23. janúar á tix.is. Undanfarin ár hefur skapast mikil fjölskyldustemning á viðburðunum sjálfum en í ár munu þeir Gunni og Felix hita áhorfendur í sal upp. Undanúrslitin og úrslitin verða í beinni útsendingu á RÚV.
Reglum samkvæmt verða lögin flutt á íslensku en í úrslitunum mega höfundar ráða hvort lag þeirra verður flutt á íslensku eða á öðru tungumáli.
Í keppninni í ár hafa fjórir höfundar ákveðið að hafa lögin sín áfram á íslensku komist þau í úrslit, en hinir sex höfundarnir munu láta flytja sín lög á ensku. Hér að neðan má sjá enskan titil lagsins aftan við þann íslenska þegar það á við.
Fyrri undanúrslit í Háskólabíói — 8. febrúar
Ævintýri
Flytjandi: Kid Isak
Lag: Þormóður Eiríksson, Kristinn Óli Haraldsson og Jóhannes Damian Patreksson
Texti: Þormóður Eiríksson og Kristinn Óli Haraldsson
Augun þín / In your eyes
Flytjandi: Brynja Mary
Lag: Brynja Mary Sverrisdóttir og Lasse Qvist
Texti: Kristján Hreinsson
Enskur texti: Brynja Mary Sverrisdóttir
Almyrkvi
Flytjandi: DIMMA
Lag: DIMMA
Texti: Ingó Geirdal
Elta þig / Haunting
Flytjandi: Elísabet
Lag: Elísabet Ormslev og Zoe Ruth Erwin
Texti: Daði Freyr
Enskur texti: Zoe Ruth Erwin
Klukkan tifar / Meet me halfway
Flytjendur: Ísold og Helga
Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson
Texti: Stefán Hilmarsson
Enskur texti: Birgir Steinn Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Stefán Hilmarsson
Seinni undanúrslit í Háskólabíói — 15. febrúar
Gagnamagnið / Think about things
Flytjendur: Daði og Gagnamagnið
Lag, íslenskur og enskur texti: Daði Freyr
Fellibylur
Flytjandi: Hildur Vala
Lag: Hildur Vala og Jón Ólafsson
Texti: Bragi Valdimar Skúlason
Oculis Videre
Flytjandi: Iva
Lag og íslenskur texti: Íva Marín Adrichem og Richard Cameron
Enskur texti: Richard Cameron
Dreyma
Flytjandi: Matti Matt
Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson
Texti: Matthías Matthíasson
Ekkó / Echo
Flytjandi: Nína
Lag: Þórhallur Halldórsson og Sanna Martinez
Texti: Þórhallur Halldórsson og Einar Bárðarson
Enskur texti: Þórhallur Halldórsson, Christoph Baer, Donal Ryan og Sanna Martinez
Hægt er að hlusta á öll lögin á Spotify og lesa textana og sjá upplýsingar um flytjendur og höfunda á songvakeppnin.is.