Fréttamaðurinn Hildur Helga Sigurðardóttir mætti handleggsbrotin í Kastljós í gærkvöldi. Hildur Helga datt á sunnudaginn en fór ekki upp á bráðamóttöku fyrr en eftir Kastljós í gær. Þar kom í ljós að hægri handleggur er brotinn um úlnlið.
Hildur Helga hnaut um vír í hálku og bar fyrir sig hægri höndina. Það má því ekki kenna hálkunni alfarið um óhappið. Sjálf hefur hún farið mjög varlega í hálkunni í vetur.
„Ég var voðalega kvalin í handleggnum en svo þegar maður er í beinni fær maður smá svona aukainnspýtingu og aukaadrenalín. Ég gat ekki farið úr og í kápuna mína og sminkunar þurftu að pússa gleraugun,“ segir Hildur um ástandið á sér þegar hún mætti í Kastljósið.
Eftir Kastljós keyrði Ólafur Þ. Harðarson sem var með Hildi Helgu í útsendingunni hana upp á bráðamóttöku. Hildur Helga segir að sem betur fer hafi verið frekar rólegt á bráðamóttökunni en mikið álag hefur verið á deildinni að undanförnu.
Á spítalanum var tekin mynd og þá kom í ljós að Hildur Helga var brotin.
„Ég er í gifsi upp að olnboga og langt fram á hönd. Ég er með fingurna lausa en ég get ekki gert mikið. Þetta er rosalega sársaukafullt,“ segir Hildur Helga, sem sér fram á að vera í gifsi í fjórar til sex vikur. Óhappið kemur sér sérstaklega illa þar sem Hildur Helga er rétthent. Hún á því erfitt með að gera ýmislegt sem hún gerir dagsdaglega.
Þrátt fyrir Hildur Helga hafi ekki áður mætt handleggsbrotin í beina útsendingu hefur hún lent í ýmsu á löngum ferli í fjölmiðlum. Hún rifjar upp atvik sem átti sér stað þegar hún var fréttaritari í London. Hringt var frá útvarpinu í beinni útsendingu en Hildur Helga var að hella upp á kaffi í pressukönnu.
„Ég var að flýta mér þannig að það spýttist alveg sjóðandi heitur korgur yfir aðra höndina á mér, sem var mjög sárt. Ég harkaði það af mér,“ segir Hildur Helga sem ræddi það einmitt við Einar Þorsteinsson, umsjónarmann Kastljóss, hvernig fólk fær oft aukaadrenalín í beinni útsendingu.
Hildur Helga hvetur fólk til þess að passa sig í hálkunni. Hún segir eldra fólk oft fara varlega en stundum ani yngra fólk áfram.