Raunveruleikastjarnan Mama June virðist vera orðin hálfblönk ef marka má nýjustu fréttir af henni. Hún sást í veðlánabúð (e. pawn shop) í Stockbridge í Georgíu-ríki á dögunum þar sem hún seldi demantshring.
Hún fékk að sögn TMZ 1.500 Bandaríkjadali fyrir hringinn eða um 185 þúsund íslenskar krónur. Samkvæmt heimildarmönnum þeirra leit hringurinn út eins og giftingarhringur.
Hringurinn gæti hafa verið gjöf frá kærasta hennar Geno eða frá fyrrverandi eiginmanni hennar Sugar Bear sem bað hennar árið 2013. Atriðið kom fram í raunveruleikaþáttum Mama June á sínum tíma en þá sagði Sugar Bear að hann hefði fengið hringinn fyrir 400 Bandaríkjadali.
Fjárhagurinn hjá Mama June og Geno er ekki upp á sitt besta þessa dagana en þeim var nýlega hent út af hóteli í Georgíu-ríki þar sem þau gátu ekki greitt reikning upp á tæpa 2 þúsund dali.
Þau hafa búið á hótelum hér og þar um ríkið á síðustu mánuðum eftir að Mama June seldi húsið sitt fyrir 100 þúsund Bandaríkjadali snemma í haust.