Tennisstjarnan Serena Williams vildi ekki tjá sig neitt um mál góðrar vinkonu sinnar, Meghan Markle, á blaðamannafundi á dögunum.
Williams og Meghan eru góðar vinkonur og hefur Meghan meðal annars mætt á fjölda leikja hennar á síðustu árum. Þar að auki var Williams ein af vinkonum Meghan sem skipulagði steypiboð Meghan sem var haldið í New York á síðasta ári.
Á blaðamannafundinum spurði blaðamaður: „Góð vinkona þín, Meghan Markle, sem mætti á síðustu tvo leiki þína, og Harry, hafa tekið skref sem mörgum finnst einstakt og sögulegt. Hvaða tilfinningar berðu gagnvart því? Hefurðu talað við hana?“
Williams svaraði því að hún ætlaði ekki að tjá sig neitt um það og bætti við að þetta hefði verið góð tilraun hjá blaðamanninum.
Meghan og eiginmaður hennar, Harry Bretaprins, tilkynntu nú á dögunum að þau ætli að hætta að sinna öllum konunglegum skyldum, afþakka laun sem ættingjar bresku konungsfjölskyldunnar fá og afsala sér konunglegum titlum sínum. Málið hefur fengið nafnið Megxit í breskum fjölmiðlum.