Spjallþáttastjórnendurnir Jimmy Fallon, Jimmy Kimmel og James Corden þurftu allir að halda aftur af tárunum þegar þeir minntust körfuboltamannsins Kobe Bryant í kvöldþáttum sínum í gærkvöldi.
Kobe og 13 ára gömul dóttir hans Gianna létust í hræðilegu þyrluslysi á sunnudagsmorgun í Calabasas í Los Angeles. Þeirra hefur verið minnst á samfélagsmiðlum, körfuboltaleikjum, í sjónvarpsþáttum og á eiginlega hvaða vettvangi sem er á síðustu dögum.
Kobe var gestur Kimmel 15 sinnum á síðustu árum og notaði Kimmel tækifærið til að sýna brot úr heimsóknum hans.
Fallon rifjaði upp fyrsta skipti sem hann hitti Kobe í partýi. Hvorugur þeirra þekkti neinn í partýinu, en Fallon var 21 árs og Kobe 17 ára.
Corden ræddi um síðustu heimsókn Kobe í þætti hans þegar hann var nýlega hættur í körfuboltanum. Corden segir hann hafa rætt mikið um hversu spenntur hann var að hafa meiri tíma til að eyða með fjölskyldu sinni.