Leikkonan Lori Loughlin og eiginmaður hennar Mossimo Giannulli hafa sett hús sitt í Los Angeles á sölu. Hjónin standa í miklum málaferlum þessi misserin en þau eru ákærð í háskólasvindlsmálinu svokallaða.
Loughlin og Mossimo eru ákærð fyrir að hafa greitt fúlgur fjár til þess að koma dætrum sínum inn í háskóla og einnig fyrir mútur gegn starfsmönnum og stjórnendum skólans.
Ásett verð fyrir eignina er 28,7 milljónir Bandaríkjadala. Þau höfðu áður notað eignina sem tryggingu upp í tryggingaféð til að losna úr fangelsi þegar þau voru handtekin í mars á síðasta ári.
Samkvæmt heimildum People segja hjónin að salan á húsinu tengist málaferlunum ekkert heldur séu þau að fylgja „ástríðu Mossimo fyrir arkítektúr eftir“.
Húsið er 1.114 fermetrar að stærð og í því eru sex herbergi, níu baðherbergi og stór sundlaug er í garðinum.
Hjónin hafa áður reynt að selja húsið. Árið 2017 settu þau það á sölu og uppsett verð var 35 milljónir Bandaríkjadala, en þau keyptu húsið árið 2015 fyrir 13,9 milljónir.