Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson undirbýr nú gerð heimildarmyndar um bitcoin-málið svokallaða. Heimildarmyndin mun snúast um Sindra Þór Stefánsson og tvo aðra ónafngreinda Íslendinga sem sakfelldir voru fyrir aðild sína að þjófnaði á tölvubúnaði í desember 2017.
Bitcoin-málið vakti heimsathygli á sínum tíma og einna helst strok Sindra frá fangelsinu að Sogni vorið 2018. Málið varðar stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr þremur gagnaverum hér á landi í desember 2017 og janúar 2018. Tölvurnar voru notaðar til að grafa eftir rafmyntinni bitcoin og hefur hluti tölvubúnaðarins ekki enn fundist. Sjö voru sakfelldir í tengslum við málið og hlaut Sindri Þór þyngsta dóminn en hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Í frétt Screen Daily um heimildarmyndina kemur fram að hluti hennar verði leikinn og að Sigurjón ætli sér að láta þremenningana endurleika hluta af mikilvægum atriðum í málinu.
Framleiðslufyrirtæki Palomar Pictures, sem er í eigu Sigurjóns, kemur að framleiðslu heimildarmyndarinnar auk Sýnar. Gert er ráð fyrir að tökur hefjist í apríl á þessu ári og fari fram á Íslandi, Spáni og í Bandaríkjunum.
Fjallað hefur verið ítarlega um málið í erlendum fjölmiðlum en Sindri Þór var í ítarlegu viðtali við Vanity Fair í nóvember á síðasta ári þar sem hann sagði frá þjófnaðinum.