Við hverju má búast á óskarsverðlaununum?

Hildur Guðnadóttir hefur sópað til sín verðlaunum síðustu vikur.
Hildur Guðnadóttir hefur sópað til sín verðlaunum síðustu vikur. AFP

Mikið verður um dýrðir í kvöld þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í 92. sinn í Dolby-höllinni. Óskarsverðlaunin eru ein eftirsóttustu verðlaun kvikmyndageirans og mikilvæg uppskeruhátíð fyrir stjörnur Hollywood. Þó hefur kvikmyndaakademían verið harðlega gagnrýnd í aðdraganda hátíðarinnar í ár, en fjölbreytni á meðal þeirra sem tilnefnd eru er ekki mikil. 

Kvikmyndin Joker fer inn í kvöldið með flestar tilnefningar, alls 11 talsins, þar á meðal tilnefningu fyrir bestu tónlistina en eins og flestum Íslendingum er kunnugt er það Hildur Guðnadóttir sem tilnefnd er. Kvikmyndirnar The Irishman, 1917 og Once Upon a Time in Hollywood fylgja fast á hæla Joker með 10 tilnefningar hver. 

Pólitík og húmor í þakkarræðum

Samkvæmt veðbönkum eru úrslitin svo gott sem ráðin fyrir þau sem tilnefnd eru fyrir kvikmyndaleik. Brad Pitt, Renee Zellweger, Joaquin Phoenix og Laura Dern eru öll talin afar sigurstrangleg, en þau hafa sópað til sín flestum verðlaunum verðlaunatímabilsins. 

Þá eru kvikmyndirnar 1917 og hin suðurkóreska Parasite taldar líklegastar til að vinna verðlaunin fyrir bestu kvikmyndina. Fari svo að Parasite vinni verður hún fyrsta kvikmyndin sem ekki er á ensku sem vinnur. 

Líklegt er að Joaquin Phoenix vinni óskarinn fyrir leik sinn …
Líklegt er að Joaquin Phoenix vinni óskarinn fyrir leik sinn í Joker. AFP

 Samkvæmt sérfræðingum BBC má búast við því að þakkarræður bæði Brad Pitt og Joaquin Phoenix eigi eftir að vekja mikla athygli, fari svo að þeir hreppi hnossið. Pitt hefur enn ekki fengið óskarinn fyrir leik, þrátt fyrir að hafa unnið sem framleiðandi fyrir 12 Years a Slave árið 2014, og ef marka má þakkarræður hans á undanförnum verðlaunahátíðum má búast við talsverðu gríni frá þessum sívinsæla leikara. 

Fari svo að Phoenix vinni fyrstu Óskarsverðlaun sín má búast við því að leikarinn gerist pólitískur í ræðu sinni, en hann hefur ekki verið feiminn við að láta í ljós skoðanir sínar við sambærileg tilefni. 

Engin kona tilnefnd fyrir leikstjórn

Ljóst er að karlmaður mun vinna Óskarinn fyrir bestu leikstjórn, en akademían hefur verið gagnrýnd fyrir að tilnefna enga konu fyrir leikstjórn. Greta Gerwig fékk tilnefningu fyrir bestu kvikmyndina, Little Women, en ýmsir hafa furðað sig á því að hún hafi ekki verið tilnefnd fyrir leikstjórn. Þá hefur akademían einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir það að aðeins einn leikari af öðrum kynþætti var tilnefndur, hin breska Cynthia Erivo fyrir leik sinn í Harriet. 

Sumir telja að poppstjarnan Billie Eilish muni frumflytja titillag nýju …
Sumir telja að poppstjarnan Billie Eilish muni frumflytja titillag nýju Bond-myndarinnar í kvöld. AFP

Þá eru margir fullir eftirvæntingar eftir tónlistaratriði poppstjörnunnar ungu Billie Eilish, en spekingar telja margir hverjir að hún muni frumflytja titillag nýju James Bond-myndarinnar, No Time to Die. Þá telja einhverjir að söngkonan unga muni flytja lag Bítlanna Yesterday undir minningarhluta hátíðarinnar.

Augu Íslendinga verða þó væntanlega öll á vonarstjörnunni Hildi, sem gæti orðið fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna verðlaunin eftirsóttu. Sigurganga hennar síðustu vikur hefur verið einstök, ekki aðeins fyrir Íslending heldur á heimsvísu. Veðbankar telja Hildi sigurstranglega, en verðlaunin í flokki kvikmyndatónlistar eru þau 19. sem veitt verða. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar