„Nær að hitta fólk alveg í hjartastað“

Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félags tónskálda og textahöfunda, segir að …
Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félags tónskálda og textahöfunda, segir að það sé eitthvað virkilega ferskt við tónlist Hildar, sem hitti fólk í hjartastað. mbl.is/Samsett mynd

„Ég held að þetta hljóti að hafa áhrif til góðs og setja fókus á íslenska menningu. Það er enn og aftur tónlist sem ber flaggið fyrir okkur,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félags tónskálda og textahöfunda, um Óskarsverðlaunin sem Hildur Guðnadóttir tónskáld hreppti í nótt. 

„Þetta er náttúrulega ótrúleg sigurganga. Hún er bara að uppskera eins og hún sáði fyrir tvö ólík verkefni í raun og veru svo þetta er alveg algjörlega magnað,“ segir Bragi. 

Hildur vann Óskarinn fyrir tónlist sína í Jókernum en áður hafði hún hlotið Golden Globe-verðlaunin, Bafta-verðlaunin og fleiri verðlaun vegna tónlistarinnar í Jókernum. Í fyrra hlaut hún svo fjölda verðlauna fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl. Þótt tónlist Hildar í Chernobyl hafi verið ólík tónlist hennar í Jókernum segir Bragi að í báðum tilfellum hafi höfundareinkenni Hildar heyrst vel. 

Sálin í tónlist Hildar sérstök

Spurður hvað sé svo sérstakt við tónsmíðar Hildar segir Bragi: „Það er sálin í þessu. Hún er að nota dórofón og alls konar tilraunakennt sem hún nær einhvern veginn að beisla inn í kvikmyndatónlistina. Ég held að aðferðafræði og frumleg nálgun á tónlistina sé líka stórt stef hjá henni. Hún nær einhvern veginn að beisla sköpunarkraftinn inn í þessi verkefni.

Bragi segir að tónlist Hildar nái til fólks á sérstakan hátt. 

„Það er eitthvað virkilega ferskt við þetta sem nær að hitta fólk alveg í hjartastað. Nálgunin fer einhvern veginn algjörlega inn í verkið og hún gefur sig alla í þau. Það er greinilega að skila sér því nú er hún orðin heimsmeistari.“

„Rosalegur innblástur fyrir yngri kynslóðir“

Spurður hvort sigurganga Hildar muni hafa áhrif á áhuga Íslendinga á tónsmíðum segir Bragi:

„Áhugi á tónlist kviknar þarna og sumir velta því fyrir sér hver þetta sé og hvað hún sé að gera og fara að leggja sig fram við að hlusta á tónlistina hennar. Allt svona hefur áhrif á yngri kynslóðir, ég tala ekki um áhrif á stelpur. Ef maður skoðar tölurnar yfir sigra kvenfólks á þessum blessuðu hátíðum þá eru þeir ekkert sérstaklega margir svo þetta er náttúrulega rosalegur innblástur fyrir yngri kynslóðir að þetta sé hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar