Óskarsverðlaun Parasite upphaf nýrra tíma

Fólkið á bak við Parasite fagnar Óskarsverðlaununum.
Fólkið á bak við Parasite fagnar Óskarsverðlaununum. AFP

Óskarsverðlaunin, sem svört kómedía suðurkóreska leikstjórans Bong Joon-ho, Parasite, hlaut um síðustu helgi, hafa brotið 92 ára gamalt glerþak og um leið rutt leiðina fyrir suðurkóreskar og aðrar myndir með öðru tungumáli en ensku inn á alþjóðlega sviðið.

Parasite fjallar um fátæka fjölskyldu frá Suður-Kóreu sem nær að lauma sér lúmskt inn í fjölskyldu- og heimilislíf auðugrar fjölskyldu. Myndin vann fern Óskarverðlaun og varð sú fyrsta með öðru tungumáli en ensku sem var kjörin besta myndin síðan Óskarinn var fyrst afhentur árið 1929.

„Leikstjórinn Bong breytti ekki bara suðurkóreskri menningarsögu heldur breytti hann sögu Hollywood,“ sagði í ritstjórnargrein suðurkóreska dagblaðsins Chosun Ilbo. Akademían hefur verið „með kvikmyndir á ensku gerðar af hvítu fólki á heilanum“ og þess vegna var erfiðara „fyrir kóreska manneskju að vinna Óskarinn með kóreska mynd heldur en að fá Nóbelsverðlaunin fyrir bókmenntir,“ sagði í greininni.

Bong Joon-ho, leikstjóri Parasite.
Bong Joon-ho, leikstjóri Parasite. AFP

Gina Kim, prófessor við háskólann UCLA og kvikmyndagerðarmaður frá Suður-Kóreu, sagði að verðlaunin sem Parasite hlaut aðfaranótt mánudags „marki nýja tíma“ og skapi „gríðarlega mikla möguleika“ fyrir erlendar kvikmyndir í Bandaríkjunum.

Hollywood „ber áfram höfuð og herðar yfir kvikmyndaiðnaðinn í heiminum“ og „hefur verið alræmt fyrir að leyfa ekki kvikmyndum með erlendu tungumáli að stíga inn á sitt umráðasvæði. Velgengni Parasite er að breyta því“.

„Ég held að sá dagur muni koma þegar það skiptir ekki máli hvort kvikmynd er með erlendu tungumáli eða ekki og það að mynd með erlendu tungumáli vinni þessi verðlaun verður vonandi ekki eins stórt mál,“ sagði hann.

Endurreisn á tíunda áratugnum 

Þessi sögulegi sigur Parasite kemur ári eftir að aldarafmæli suðurkóreskrar kvikmyndagerðar var fagnað 2019. Kvikmyndaiðnaðurinn í landinu er sá fimmti stærsti í heiminum og hefur vakið sífellt meiri athygli á kvikmyndahátíðum á síðustu árum og áratugum.

Árið 2004 vann spennumynd Park Chan-wook, Oldboy, Gullpálmann á Cannes-hátíðinni og árið 2012 vann dramað Pieta eftir Kim Ki-duk Gullna ljónið í Feneyjum.

Suðurkóreskir leikstjórar hafa þegar hafið innreið sína í Hollywood. Sálfræðitryllirinn Stoker í leikstjórn Park með Nicole Kidman og Mia Wasikowska í aðalhlutverkum kom út 2013 og Bong sendi frá sér sína fyrstu enskumælandi mynd sama ár, hasarmyndina Snowpiercer með Tilda Swinton og Ed Harris í helstu hlutverkum.

Handritshöfundur Parasite, Han Jin-won, ásamt leikstjóranum Bong Joon-ho.
Handritshöfundur Parasite, Han Jin-won, ásamt leikstjóranum Bong Joon-ho. AFP

Í nágrannaríkinu Kína eru kvikmyndir og annað skapandi efni ritskoðað með reglubundnum hætti. Suðurkóreskar menningarafurðir hafa átt auðveldara um vik. Á alþjóðavísu hafa  Kóreupoppið (K-pop) og strákabandið BTS til að mynda notið mikilla vinsælda. 

Endurreisn suðurkóreskrar kvikmyndagerðar varð á tíunda áratugnum með lýðræðisumbótum eftir áratuga herstjórn. Árið 2007 sagði fyrrverandi forseti landsins, hinn vinstrisinnaði Kim Dae-jung, við embættismenn sína: „Útvegið listamönnum fjárhagslegan stuðning en skiptið ykkur aldrei af því hvað þeir gera. Um leið og stjórnvöld skipta sér af þá verður skapandi iðnaðurinn gjaldþrota.“

Þrátt fyrir þetta voru þúsundir listamanna, þar á meðal leikstjórarnir Bong og Park, settir á svartan lista af ríkisstjórn íhaldsmanna undir stjórn Park Geun-hye, sem var síðar felldur af stóli eftir mótmæli á götum úti vegna ásakana um spillingu og fyrir að misnota valdastöðu sína.

Að sögn Jason Bechervaise, prófessors við háskólann Kore Soongsil Cyber, eru Óskarsverðlaunin sem Bong hlaut fyrir Parasite „mikilvægt tækifæri fyrir kóreskan kvikmyndaiðnað til að sína fram á þá miklu hæfileika sem hafa verið að blómstra í áratugi“.

„Eins og í öðrum iðnaði eru vandamálin til staðar en mig grunar að nágrannar þeirra verði frekar öfundsjúkir.“

Alþjóðlegur armur kínversku ríkissjónvarpsstöðvarinnar CCTV notaði fjölmiðilinn Twitter sem er bannaður í heimalandinu til að tísta eftir Óskarsverðlaunin: „Óskarinn er búinn – Núna er tími kominn til að kanna það besta sem kínverskur kvikmyndaiðnaður hefur upp á að bjóða.“ 

Óskarnum fagnaði uppi á sviði.
Óskarnum fagnaði uppi á sviði. AFP

Fólk af asískum uppruna himinlifandi

Fólk af asískum uppruna sem býr í Norður-Ameríku, þar á meðal kóresk-bandaríski rithöfundurinn Min Jin Lee og Hollywood-leikkonan Sandra Oh, hefur aftur á móti fagnað sigri Parasite innilega.  

Þrátt fyrir gott gengi rómantísku asísku gamanmyndarinnar Crazy Rich Asians er fólk af asískum uppruna enn lítt áberandi í Norður-Ameríku, að sögn félagsfræðingsins Michael Hurt við háskólann í Seúl. Sigur Bong var „óvænt skref fram á við“ fyrir asískt fólk, sagði hann en bætti við að mörgum líði þó enn eins og þeir séu ósýnilegir í heimsálfunni.

Kieran Meyn, sem er kóresk-bandarískur og ólst upp í úthverfi Connecticut þar sem hann var undir miklum þrýstingi um að aðlagast umhverfinu, sagði að þakkarræða Bong á Óskarnum hafi verið ógleymanleg.

„Það voru margir dagar þar sem maður fór í skólann og allir krakkarnir kölluðu mig alls konar nöfnum og gerðu augun sín skásett,“ sagði hann við AFP.

„Það að Parasite hafi unnið þessi verðlaun, þrátt fyrir að segja kóreska sögu með kóreskum leikurum og tökuliði og þrátt fyrir að vera á kóresku, sýnir að þetta getur líka gerst hérna í Ameríku,“ bætti hann við með von um betri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Loka