Leikstjórinn Bong Joon-ho brosti og veifaði til aðdáenda sinna þegar hann lenti í heimalandi sínu, Suður-Kóreu, í gær. Bong hefur farið sigurför á verðlaunahátíðum á síðustu vikum og landaði stærstu verðlaununum á Óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudaginn fyrir viku.
Bong mætti mikill fjöldi fólks á flugvellinum sem vildi berja leikstjórann góðkunna augum og óska honum til hamingju. Í viðtali á vellinum sagði hann: „Þetta hefur verið löng ferð í Bandaríkjunum og ég er feginn að allt hafi gengið vel. Núna er ég ánægður að geta snúið mér hljóðlega að því að skapa, sem er mín meginiðja.“
Hann sagði á léttu nótunum að hann ætli að þvo sér vel um hendurnar í framtíðinni til þess að leggja hönd á plóg við að sigrast á COVID-19 veirunni.
Eins og frægt er sló kvikmynd hans, Parasite, í gegn á Óskarnum og fékk hann verðlaun fyrir leikstjórn. Parasite hlaut einnig verðlaun fyrir besta frumsamda handritið og í flokki erlendra kvikmynda. Stærstu verðlaunin voru þó í flokki bestu kvikmyndarinnar. Parasite er fyrsta kvikmyndin á erlendu tungumáli til að hljóta þau verðlaun í 92 ára sögu verðlaunanna.