„Ég er mjög tilbúinn í þetta. Ég hugsa að þetta verði skemmtilegt,“ segir Daði Freyr Pétursson. Daði og Gagnamagnið voru í kvöld kjörin framlag Íslands til Eurovision í Rotterdam 2020.
Daði segist vera mjög þakklátur öllum þeim sem kusu hann og Gagnamagnið sem flutti lagið Think about things. „Alveg rosalega. Þetta er algjört „best case scenario“ segir Daði.
Daði komst í úrslitaeinvígi keppninnar ásamt rokkhljómsveitinni DIMMU og hafði betur í einvíginu.
Tæknileg vandamál komu upp í flutningi Daða og Gagnamagnsins þegar komið var að úrslitaeinvíginu en Daði segir að það hafi ekki slegið sig út af laginu.
„Þetta gerðist líka í morgun nefnilega. Við fórum upp á svið og það voru einhverjir tæknilegir örðugleikar þá svo við urðum að fara af sviðinu og koma aftur inn á. Svo við vorum aðeins búin að fá að kynnast því. Svo er bara búið að vera svo mikið að gerast í dag að maður kemst í einhvern svona gír og er kominn í smá svona Eurovision-fíling.
Daði segist ætla að fagna sigrinum með sínum nánustu í kvöld. „Við ætlum að byrja á því að fagna aðeins hérna með krökkunum sem voru að keppa og starfsmönnum og svo færum við okkur eitthvað.“
Æfingar fyrir Eurovision í maí hefjast bráðlega, en atriði Daða verður líklega afar svipað og í kvöld.
„Ég ætla að byrja á því að flýja aftur til Berlínar, búa til meiri músík og meira efni, við reynum að nýta þetta eins og við getum og sjá hversu langt við getum farið með þetta í Eurovision. Stefnan er náttúrulega að vinna þar. Þetta hlýtur að koma núna, það getur ekki annað verið.“
Lag Daða hefur verið gríðarlega vinsælt að undanförnu, bæði hérlendis og erlendis, svo ljóst var að Daði naut mikils stuðnings fyrir úrslitakvöldið.
„Ég var ekkert að gera ráð fyrir þessu en við vissum að það væri ágætismöguleiki að komast áfram. En þetta er ekki beint „ekki óvænt“, en við gerðum ekki ráð fyrir neinu. En við vissum samt að það væri góður séns enda finnst mér við líka vera með gott lag og gott atriði.“
Aðspurður hvernig tilfinning það sé að vinna Söngvakeppnina hafði Daði þetta að segja; „Þetta er mjög grillað eiginlega bara. Maður er búinn að vera svo mikið í þessu og svo er maður allt í einu að fara bara í Eurovision. Það er mjög skrítið, en þetta verður alveg klárlega gaman.“