Ánægður með ótrúlegar viðtökur í Frakklandi

Ragnar Jónasson með La dame de Reykjavik.
Ragnar Jónasson með La dame de Reykjavik. ljósmynd/aðsend

Bókin La dame de Reykjavik eða Dimma eftir glæpasagnahöfundinn Ragnar Jónasson kom út í Frakklandi í kiljuformi á dögunum. Bókin rauk upp metsölulistann í Frakklandi og er nú mest keypta glæpasagan í Frakklandi. Ragnar segist að vonum ánægður með árangurinn en hann á sér stóran aðdáendahóp í Frakklandi. 

Metsölulistinn sem um ræðir er heildarlisti yfir mest seldu glæpasögurnar í Frakklandi síðustu sjö daga. Listinn uppfærist daglega og fór Ragnar á toppinn í gær og hélt velli í dag, föstudag. Bókin Dimma kom út á Íslandi árið 2015. Hún kom út innbundin í Frakklandi í fyrra en Ragnar segir þó að glæpasögurnar seljist alltaf betur í kiljum í Frakklandi. 

„Þetta kemur mjög skemmtilega á óvart, það er ekki hægt að segja annað. Líka miðað við þetta stóra land og þá höfunda sem eru að gefa út,“ segir Ragnar. „Þetta er stærsta landið mitt í bókaútgáfu. Síðustu tölur frá því í febrúar sýndu að við höfum selt yfir 600 þúsund bækur í Frakklandi síðan 2016. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt. Þær eru mjög vinsælar.“

Ragnar segir Frakka mikla bókaþjóð og segir hægt að kaupa kiljur úti um allt.

„Þeir eru mikil bókaþjóð, maður kemst að því þegar maður fer og heimsækir landið. Ég fer þangað einu sinni til tvisvar á ári á einhverjar bókahátíðir. Maður sér bara að þeir elska bækur, þeir tala mikið um bækur og kaupa mikið af bókum og lesa mikið. Það er mjög gefandi að fara til Frakklands og sjá hvaða bækurnar eru stór hluti af lífi fólks, eins og kannski hérna heima á Íslandi.“

Spurður um áhrif kórónuveirunnar á bóksölu og lestur vonar Ragnar að fólk gefi sér tíma og lesi bók í stað þess að horfa bara á Netflix. Sjálfur ætlar Ragnar að lesa mikið í samkomubanninu sem fram undan er og er með stafla af bókum sem hann hefur ekki komist í að lesa. 

„Svo ætla ég nú að skrifa líka. Það er voða kósý þegar maður er heima á kvöldin og fær ekki að fara neitt út. Það er bara held ég það skemmtilegast sem ég gæti gert, að vinna í næstu eða þarnæstu bók.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vertu viss um að þú njótir þess sem þú upplifir jafnóðum, í stað þess að vera með hugann við framtíðina. Ræktaðu það sem vekur áhuga þinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vertu viss um að þú njótir þess sem þú upplifir jafnóðum, í stað þess að vera með hugann við framtíðina. Ræktaðu það sem vekur áhuga þinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Torill Thorup