„Það er dásamlegt að vera kominn aftur í leikhúsið, enda hef ég alla tíð litið fyrst og fremst á mig sem leikhúsmann,“ segir Magnús Geir Þórðarson, sem um áramótin var skipaður þjóðleikhússtjóri til næstu fimm ára. Magnús Geir hefur víðtæka leiklistarreynslu sem leikstjóri og leikhússtjóri, því hann hefur stýrt þremur öðrum leikhúsum, þ.e. Leikfélagi Íslands 1995-2001, Leikfélagi Akureyrar 2004-2008 og Borgarleikhúsinu 2008-2014, þar til hann var útvarpsstjóri 2014-2019.
„Mér þykir afskaplega vænt um að hafa fengið tækifæri til að stýra RÚV og er afskaplega stoltur af árangrinum sem náðst hefur þar. En það var kominn tími til að breyta til, enda var ég búinn að hrinda flestu af því sem ég ætlaði mér í framkvæmd. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma aftur inn í leikhúsið og halda áfram á fyrri vegferð,“ segir Magnús Geir og bendir á að þótt RÚV hafi verið ákveðinn útúrdúr á ferlinum eigi RÚV og leikhúsið margt sameiginlegt sem nýtist honum í nýja starfinu. „Báðir miðlar eru að segja sögur og rýna í samfélagið til að skoða hvaða viðfangsefni þarf að takast á við hverju sinni. Ég held að leikhúsið hafi gott af því að hlusta meira á samfélagið en það hefur gert, enda snýst þetta allt um erindið,“ segir Magnús Geir og tekur fram að sú fjarlægð sem hann hafi fengið frá leikhúsinu í starfi sínu sem útvarpsstjóri nýtist vel til að skoða hlutina með ferskum augum.
„Nú þegar ég er aftur kominn í leikhúsið finn ég að ástríðan fyrir leikhúsinu er jafnvel enn meiri en áður,“ segir Magnús Geir og rifjar upp að svo skemmtilega vilji til að fyrstu leiksýningarnar sem hann sá á unga aldri hafi verið í Þjóðleikhúsinu. Aðeins níu ára lék hann í Tyrkja-Guddu í Þjóðleikhúsinu og ári síðar í Ríkharði þriðja sem ýtti svo sannarlega undir leikhúsbakteríuna sem fyrir hendi var. „Ég þekki Þjóðleikhúsið því mjög vel þótt það vilji svo til að ég hef aldrei leikstýrt hér í húsinu,“ segir Magnús Geir og tekur fram að hann reikni með að leikstýra hjá Þjóðleikhúsinu reglulega, en samt hóflega, frá og með leikárinu 2021-22. „Ég tel það gott fyrir leikhúsið að hafa leikstýrandi leikhússtjóra,“ segir Magnús Geir og tekur fram að hann sjái það sem kost að leikhússtjórinn komist reglulega út af skrifstofunni og í bein tengsl við listræna starfið í húsinu.
„Skipulagsbreytingarnar sem við kynntum nýverið miða að því að efla listrænt starf og aðgreina það betur frá rekstrarlegum þáttum. Þannig á leikhússtjórinn og listræna teymið í auknum mæli að geta einbeitt sér að stefnumörkun og listrænni stjórnun,“ segir Magnús Geir og vísar þar til nýs skipurits Þjóðleikhússins sem kynnt var í síðustu viku. Í nýju skipulagi verður til nýtt rekstrarsvið og mun framkvæmdastjóri sviðsins bera ábyrgð á daglegum rekstri, sem færist af hendi leikhússtjóra. Í síðasta mánuði voru fjórir listrænir stjórnendur fastráðnir við Þjóðleikhúsið til að skipa teymi listrænna stjórnenda við leikhúsið ásamt leikhússtjóra, þ.e. þau Hrafnhildur Hagalín, Ólafur Egill Egilsson, Ilmur Stefánsdóttir og Björn Bergsteinn Guðmundsson, sem koma í stað verkefnaráðinna listrænna stjórnenda áður. Þá var kynnt að Unnur Ösp Stefánsdóttir kæmi á samning sem leikstjóri og leikkona.
„Markmið teymisins er að efla samtal og framtíðarsýn í listrænni stefnumörkun leikhússins,“ segir Magnús Geir og tekur fram að það sé ávallt hlutverk nýs stjórnanda að horfa á hlutina með ferskum augum, leggja við hlustir og koma með ábendingar um hvað megi bæta og efla í rekstrinum. Rifjar hann upp að hann hafi gert þó nokkrar breytingar bæði hjá Borgarleikhúsinu og RÚV þegar hann tók þar til starfa. „En breytingarnar eru aldrei bara breytinganna vegna. Þær breytingar sem hér er verið að gera eru allar með það að markmiði að efla listrænt starf þannig að það sé meiri ró og næði til að sinna listrænni stefnumörkun og hlúa að sýningunum sjálfum. Mín trú er að það gerist fyrst og fremst með því að skerpa á skipulaginu, þannig að framleiðslan, reksturinn og markaðssetningin fái skýrari umgjörð með öflugri stjórnun og bættum verkferlum undir stjórn nýs framkvæmdastjóra. Með því skapast meira næði fyrir þjóðleikhússtjóra til að huga að stóru myndinni, listrænu sýninni, verkefnavalinu, erindinu og valinu á listrænum stjórnendum og þroska leikhópinn ásamt því að styðja við hverja og eina sýningu þegar hún er í mótun. Með því að aðgreina þessa þætti og gera hluta starfseminnar skýrari og formfastari gefst aukið svigrúm til sköpunar þar sem hægt er að taka alvöru áhættu og kafa á dýptina. Teymi öflugra fastráðinna listrænna stjórnenda skapar auk þess nýja möguleika til aukins samtals um framtíðarsýn og stefnu.“
Hluti af skipulagsbreytingunum felst í því að breyting hefur orðið á ráðningarformi fimm stöðugilda leikara, sem áður voru fastráðnar stöður, en nú verða stöðugildin nýtt til ráðningar til skemmri tíma til að auka sveigjanleika. Það hlýtur að vera erfitt að þurfa að segja upp fólki?
„Já, algjörlega. Það þýðir samt ekki að skorast undan því. Auðvitað getur verið freistandi að hreyfa ekki við neinu, en nýr stjórnandi er ekki ráðinn til þess. Það er ætlast til þess að nýr stjórnandi horfi á hlutina ferskum augum og geri þær breytingar sem þarf að gera – en auðvitað reynir maður að gera þessar strúktúrbreytingar þannig að þær séu sem sársaukaminnstar fyrir alla. Nýkynntar skipulagsbreytingar eru heildstæðar og stefnumiðaðar. Í tilviki leikaranna fimm er verið að breyta ráðningarforminu úr fastráðningu í lausráðningu og ég geri mér vonir um að þau muni öll halda áfram að vinna fyrir Þjóðleikhúsið þótt það sé á öðru formi en verið hefur.“
Af öðrum breytingum má nefna að stofnuð hefur verið ný deild sem hefur það að markmiði að bæta þjónustu við börn og ungt fólk, en í síðasta mánuði auglýsti Þjóðleikhúsið eftir nýjum íslenskum leikritum fyrir börn. Um liðna helgi var auk framkvæmdastjóra auglýst eftir forstöðumanni samskipta, markaðsmála og upplifunar og þjónustu- og upplifunarstjóra, en um er að ræða nýjar stöður og samhliða voru þrjár eldri stöður lagðar niður.
„Við erum að leggja aukna áherslu á upplifunarþáttinn og þjónustuna sem tengist miðlun á starfinu, samskipti og samtali við áhorfendur, frekar en beina markaðs- og sölumennsku. Auðvitað vil ég að Þjóðleikhúsið sé fjölsótt leikhús, en þetta snýst ekki bara um að selja leikhúsmiða heldur miklu meira um samtalið við samfélagið – bæði að leggja við hlustir og að samfélagið sé meðvitað um það sem er að gerast hér og upplifi að Þjóðleikhúsið sé aðgengilegt og taki á móti því opnum örmum. Þó að Þjóðleikhúsið sé musteri íslenskrar tungu sé það ekki ókleifur klettur, heldur alþýðlegt og opið landsmönnum. Annað mikilvægt atriði er að líta á það sem við höfum fram að bjóða ekki sem bara tveggja klukkustunda einingar. Upplifunin hefst við fyrstu snertingu þegar leikhúsgestir hafa samband við miðasöluna, upplifun þeirra af húsinu fyrir sýningu og í hléi, leikskránni og myndböndum um sýninguna sem aðgengileg eru á netinu, sýningunni sjálfri og loks því hvernig hún lifir með áhorfendum eftir að heim er komið. Ég sá sem dæmi Kardemommubæinn sem barn, en ég hélt áfram að upplifa sýninguna í tíu ár þar sem hún var aðgengileg á plötu. Tækifærin í dag eru miklu fleiri en áður,“ segir Magnús Geir og jánkar því að spennandi væri að taka upp fleiri leiksýningar til varðveislu og að reynsla hans af RÚV geti nýst ágætlega í þessu sambandi.
Í lögum um sviðslistir kemur fram að aðalverkefni Þjóðleikhússins sé flutningur íslenskra og erlendra leikverka, jafnt eldri verka sem nýrra, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Verkefnaval skuli vera fjölbreytt og tryggt að á hverju leikári séu frumflutt íslensk leikverk og sett upp verk ætluð börnum og ungu fólki. Í raun má segja að Borgarleikhúsið starfi eftir sömu forskrift, þó að það falli ekki undir lögin. Er það kostur eða galli að þínu mati?
„Þjóðleikhúsið hefur verið með þjóðinni í 70 ár og á þeim tíma hafa skyldurnar verið meira eða minna þær sömu. Mér finnst skilgreiningin á hlutverki Þjóðleikhússins í lögum í dag bæði eðlileg og skynsamleg. Hins vegar er mjög mikið svigrúm innan þess. Það er okkar verkefni að uppfylla þetta hlutverk með framúrskarandi hætti, þannig að áhorfendur upplifi leikhústöfra sem aldrei gleymast. Það urðu umtalsverðar áherslubreytingar í Borgarleikhúsinu 2008 sem skiluðu miklum árangri og leikhúsinu hefur gengið vel síðan innan þess ramma. Sannarlega eru ákveðin líkindi milli leikhúsanna tveggja. Nú erum við að móta hvernig við ætlum að þróa Þjóðleikhúsið áfram til næstu ára og ég sé endalaus tækifæri til að sækja fram. Við erum með ótal skemmtilegar nýjungar í farvatninu sem við hlökkum til að kynna.
Það sem ber hvað hæst í áherslubreytingum er að við viljum efla nýja íslenska leikritun og í auknum mæli segja sögur sem eiga beint erindi við íslenska áhorfendur í dag. Eitt helsta hlutverk Hrafnhildar Hagalín er að efla hér höfundastarf og styðja við íslenska leikritun. Við munum kappkosta að Þjóðleikhúsið eigi ríkt erindi við áhorfendur þannig að sögurnar sem hér eru sagðar standi okkur sannarlega nærri. Ég vil líka að við hlúum að sérstöðu leikhússins sem listforms, því sameiningarmáttur leikhússins hefur sjaldan verið verðmætari en nú á tímum tvístrunar í miðlun og tækni. Það er verðmætara nú en oftast áður að ná hópi fólks til að upplifa sögu saman án annars utanaðkomandi áreitis. Núið hefur sjaldan verið dýrmætara en nú og það munum við virða. Við viljum líka að Þjóðleikhúsið sé opið og aðgengilegt fyrir breiðan hóp áhorfenda,“ segir Magnús Geir og nefnir jafnframt að Þjóðleikhúsið muni leggja aukna áherslu á samstarf og gagnsæi. „Á dögunum auglýsti Þjóðleikhúsið í fyrsta skipti formlega eftir hugmyndum að samstarfsverkefnum. Hjá RÚV settum við stóraukna áherslu á samstarf og samtal og þar sá ég hvað slíkt getur skilað miklum samfélagslegum verðmætum. Þar verða tveir plús tveir ekki endilega fjórir heldur fimm eða eitthvað miklu meira. Þessa reynslu langar mig að nýta í leikhúsinu.“
Misjafnt er við leikhússtjóraskipti hversu fljótt nýr stjórnandi getur sett mark sitt á efnisskrána. Hvernig verður þetta hjá þér?
„Ég ákvað að gera engar breytingar á yfirstandandi leikári, en þegar ég tók hér við var ekki búið að móta leikárið 2020-21 þannig að við höfum frá áramótum unnið að því að stilla upp dagskrá næsta leikárs,“ segir Magnús Geir og tekur fram að ánægjulegt sé að geta strax mótað stefnu leikhússins þó að tíminn til stefnu sé vissulega skammur. „Næsta leikár lítur afskaplega vel út og verður gríðarlega spennandi. “
Nýverið bárust fréttir af því að Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri væri genginn til liðs við Þjóðleikhúsið og myndi þar leikstýra einni sýningu á ári næstu fimm ár. Samtímis myndi hann vinna með Þjóðleikhúsinu að því að efla alþjóðlegt samstarf leikhússins og veita því listræna ráðgjöf á tímabilinu. Hvernig er samstarfið til komið?
„Hlutverk leikhússtjóra er alltaf að raða saman mest spennandi verkefnunum og öflugasta listafólkinu sem völ er á hverju sinni. Þorleifur er auðvitað einn þeirra sem ég hef verið að ræða við og falast eftir kröftum hans til framtíðar. Við erum auðvitað í skýjunum yfir því að Þorleifur vilji taka þátt í þessu ævintýri með okkur og gera samkomulag til lengri tíma. Þannig verður hann fastur hluti af starfsemi Þjóðleikhússins og þeirri framþróun sem hér á sér stað.“
Meðan þú varst útvarpsstjóri var gert mikið átak í því að jafna hlut kynjanna í hópi yfirstjórnar, millistjórnenda, þáttastjórnenda og viðmælenda. Munt þú sem leikhússtjóri gæta að jafnræði kynjanna?
„Jafnrétti er mér hjartans mál og ég mun gera mitt allra besta til að Þjóðleikhúsið verði til fyrirmyndar á þessum vettvangi. Ég er mjög stoltur af árangrinum sem náðist hjá RÚV,“ segir Magnús Geir og bætir við að auk ofangreindra atriða hafi kynjasjónarmið verið tekin inn þegar ákveðið var hvaða sögur skyldi segja. „Hollywood er mjög karllæg og því var það liður í því að auka hlut kvenna í dagskrá RÚV að leggja aukna áherslu á innlent efni, efni frá Norðurlöndum og Evrópu,“ segir Magnús Geir og segist hafa jafnvægi kynja að leiðarljósi nú þegar hann stilli upp nýju teymi í leikhúsinu. Stefnt sé að því að jafnvægi verði í starfsmannahópnum, í sögunum sem sagðar verða og jafnframt í hópi listrænna stjórnenda. „Við stefnum að því að ná þessum árangri eins hratt og mögulegt er – vonandi strax á næsta ári,“ segir Magnús Geir að lokum. Viðtalið við hann birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12. mars 2020.