Í öðrum þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ er hrollvekjan The Invisible Man, eða Ósýnilegi maðurinn, tekin fyrir af hlaðvarpsstjórnendum og gesti þeirra, kvikmyndarýninum Brynju Hjálmsdóttur.
Kvikmyndin er lauslega byggð á samnefndri kvikmynd frá árinu 1933 sem aftur byggist á sögu H.G. Wells frá árinu 1897 sem Brynja segir að sé hundleiðinleg. Það er hin nýja kvikmynd hins vegar ekki þótt ekki sé hún alls kostar gallalaus. Er sérstaklega hægt að mæla með myndinni fyrir þá sem óttast að ósýnilegur maður sitji fyrir þeim og reyni jafnvel að drepa þá.