Bubbasöngleikurinn Níu líf verður frumsýndur í kvöld og allar sýningar í Borgarleikhúsinu verða sýndar um helgina samkvæmt áætlun. Frá og með aðfaranótt mánudags tekur samkomubann gildi á Íslandi sem nær til fjögurra vikna. Á þeim tíma verða engar leiksýningar sýndar í Borgarleikhúsinu.
„Við ætlum að halda okkar striki og frumsýna 9líf í kvöld. Listamenn hafa unnið ötullega að þessu verki og ég tel það brýnt að frumsýna það til að viðhalda starfsandanum í húsinu áður en samkomubannið tekur gildi á miðnætti aðfararnótt mánudagsins,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins og bætir við „baráttuandinn verður við lýði í kvöld og það er ómetanlegt að leyfa honum að blása sér í brjóst fyrir bannið. Þeir sem koma að sýningunni verða að fá að fara yfir fjallið.“
Eins og fyrr segir verður söngleikurinn 9líf um Bubba Morthens frumsýndur í kvöld og sýndur á laugardag og sunnudag. Í Borgarleikhúsinu um helgina verða einnig í sýningu verkin Gosi og Ég er ekki mamma mín.
Brynhildur ítrekar að öllum gestum sé sýndur skilningur. Fólki er frjálst að færa sína miða þar til samkomubanni verður aflétt. Eins og staðan er núna verða sýningarnar færðar lengra inn í vorið og sumarið. Þetta er samt allt í vinnslu og staðan breytist fljótt, segir Brynhildur.
Tekið skal fram að gott aðgengi er að spritti í leikhúsinu. Búið er að loka fyrir allt aðgengi óviðkomandi að svæðinu baksviðs einnig verður ekkert frumsýningarpartí.
„Við lifum á fordæmalausum tímum. Það veit svo sem enginn hvað verður eftir þetta fjögurra vikna samkomubann. Við vinnum að aðgerðaáætlun þar sem við þurfum að fara yfir allt okkar starf og sjáum til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda vinnustaðinn,“ segir hún.