Á að líða illa meðan það horfir

Masali Baduza og Jack Rowan í hlutverkum elskendanna Sephy og …
Masali Baduza og Jack Rowan í hlutverkum elskendanna Sephy og Callum. BBC

Kynþáttafordómar eru viðfangsefnið í nýjum þáttum, Noughts + Crosses, sem breska ríkissjónvarpið, BBC, frumsýndi á dögunum. Þar er þó öllu snúið á hvolf, svartir drottna yfir hvítum.

Sephy og Callum eru ung og ástfangin í Lundúnum samtímans. Synd væri þó að segja að framtíðin blasti við þeim enda lítur samfélagið sem þau búa í samband þeirra hornauga fyrir þær sakir að Sephy tilheyrir hinni ráðandi svörtu stétt, „crosses“, en Callum er fábrotinn „nought“, það er hvítur undirmálsmaður, en móðir hans dregur fram lífið sem húshjálp á heimili Sephy. 

Fjölskylda Sephy berst á en faðir hennar er mikilsmetinn og valdamikill stjórnmálamaður með rætur í Afríku (heitir raunar Apríka í þáttunum) sem drottnað hefur yfir Evrópu í sjö aldir eftir að hafa nýlenduvætt álfuna. Honum er að vonum lítið um það gefið að dóttir hans sé að viðra sig upp við blásnauðan og duglausan kotbóndason sem tilheyrir örugglega einhverju ofbeldishneigðu hvítu gengi sem þráir ekkert heitar en að ganga mill bols og höfuðs á svörtu yfirstéttinni.

 Þrátt fyrir að hafa tóma hunda á hendi er Callum staðráðinn í að láta gott af sér leiða í heimi sem er honum alls ekki hliðhollur. Að sama skapi sér Sephy óréttlætið en talar fyrir daufum eyrum. Hennar megin múrsins skilur enginn hvers vegna það hvarflar að henni að taka svona niður fyrir sig. Á götum úti kraumar reiðin, uppþot eru í aðsigi og áður en þau vita eru Callum og Sephy í bráðri hættu.

Nútíma Rómeó og Júlía

Rómeó og Júlía, hugsar nú ugglaust einhver. Ungir og bláeygir elskendur, sameinaðir af ást en sundrað af samfélaginu. Og jú, Malorie Blackman, höfundur skáldsagnanna sem þættirnir byggjast á, gengst fúslega við því að Noughts + Crosses sé hennar útgáfa af hinni ódauðlegu ástarsögu Shakespeares. En um leið snörp ádeila á samfélag sem lætur kynþáttamisrétti líðast.

Blackman er sjálf svört og hefur lengi verið málefnið hugleikið en meira en tveir áratugir eru síðan fyrsta bókin í bókaflokknum kom út. Í hennar huga hefur þó ekki mikið breyst í millitíðinni og fyrir vikið eigi sjónvarpsþættirnir brýnt erindi.

Oft er sagt að fólk eigi erfitt með að setja sig í spor annarra; nema þá að hreinlega vera þar. Þetta er leikkonunni Kiké Brimah, sem fer með hlutverk Minervu, hinnar illskeyttu eldri systur Sephy í þáttunum, ofarlega í huga í samtali við breska blaðið The Guardian. „Von mín er sú að þættirnir nái til Claire frá Devon – það er fólks sem hefur enga tilfinningu fyrir reynslu af þessu tagi. Fólki á að líða illa meðan það horfir á þættina. Til þess að skilja sjónarmið annarra, þarftu að hafa gengið í gegnum það sama.“

Nánar er fjallað um Noughts + Crosses í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach