Guðríður víðförla hefur nýtt ferðalag

Stilla úr myndinni um Guðríði hina víðförlu.
Stilla úr myndinni um Guðríði hina víðförlu.

Guðríður Þorbjarnardóttir, einnig þekkt sem Guðríður víðförla, er í brennidepli í heimildarmynd sem nefnd er í höfuðið á henni, heimildarmyndinni Guðríður hin víðförla. Framleiðendum kvikmyndarinnar, Önnu Dís Ólafsdóttir og Jóhanni Sigfússyni, þótti vitneskja almennings um Guðríði vera af skornum skammti miðað við það hversu merkileg persóna hún var. Snemma í ferlinu komst Anna Dís raunar að því að Eiríks saga rauða hefði í raun fremur átt að heita Guðríðar saga Þorbjarnardóttur.

Anna Dís Ólafsdóttir.
Anna Dís Ólafsdóttir.

Heimildarmyndin er tekin upp í fjórum löndum vegna þess hve víðförul Guðríður var en bæði erlendir og íslenskir aðilar koma að gerð myndarinnar, til að mynda þekkt bresk leikkona sem mun fara með hlutverk Elísabetar drottningar í næstu þáttaröð af Crown.

„Við áttuðum okkar á því við upphaf framleiðsluferlisins að það væru hreinlega fáir einstaklingar, sérstaklega af yngri kynslóðinni, sem vissu eitthvað um Guðríði Þorbjarnardóttur eða vissu að hún hefði verið til yfir höfuð. Fólk kannast við Leif Eiríksson og þessar helstu hetjur en Guðríður virtist vera svolítið týnd í þessum hópi landkönnuða. Þegar við fórum að kafa nánar ofan í sögu hennar sáum við hvað afrek hennar eru einstök í heimssögunni,“ segir Anna Dís.

Fór átta sinnum yfir hafið

Samkvæmt Íslendingasögum fæddist Guðríður á Snæfellsnesi, ferðaðist bæði til Grænlands og Norður-Ameríku og bjó þar í þrjú ár. Hún lagði síðar aftur á hafið, til Noregs og aftur heim. Síðar fór hún til Rómar á efri árum. „Þegar við fórum að telja þetta saman hefur hún farið átta sinnum yfir hafið á ævinni. Það gerði hún á víkingaskipi. Hún var svona geimfari síns tíma,“ segir Anna Dís, sem bendir á að merkilegt sé að kona sem var uppi á árunum 980-1050 eftir Krist hafi alltaf komist heil heim.

„Hún ferðast um svo mörg og mismunandi menningarsvæði á þessum ferðum. Bara það að hún hafi ekki verið drepin einhvers staðar fyrir misskilning eða óheppni finnst mér mjög merkilegt. Alltaf náði hún einhvern veginn heim, einhvern veginn náði hún í höfn aftur. Hún hlýtur að hafa verið frábær í mannlegum samskiptum. Svo var hún auðvitað klár kona, hún hefur getað lesið vel í fólk og aðstæður til þess að ná alla leið. Hún deyr í hárri elli, hún hefur örugglega verið komin töluvert á efri ár þegar hún deyr í Skagafirði. Þetta er náttúrulega alveg stórkostlega merkileg ævi og ótrúlegt afrek, ég tala nú ekki um á þessum tíma þegar siglt var á opnum víkingaskipum yfir Atlantshafið.“

Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun, var framleiðendum heimildarmyndarinnar innan handar í öllu ferlinu. „Stærstan hluta upplýsinga um Guðríði er að finna í Eiríks sögu rauða. Eitt af því fyrsta sem Gísli sagði okkur var að ef sú saga væri skrifuð í dag myndi hún ekki heita Eiríks saga rauða heldur Guðríðar saga Þorbjarnardóttur. Þar með var ekki aftur snúið fyrir okkur, við urðum að gera þessa heimildarmynd. Maður skoðar þessar sögur með öðrum gleraugum í dag og sér afrekin kannski í öðru ljósi.“

Mæðgur leika Guðríði

Þrátt fyrir að framleiðendum myndarinnar hafi þótt töluvert vanta upp á vitund almennings á Guðríði víðförlu koma ýmsir fræðimenn fram í kvikmyndinni, jafnt erlendir sem íslenskir, sem segja frá Guðríði af miklum ákafa. Sömuleiðis kemur fjöldi fólks að gerð heimildarmyndarinnar.

„Ég og Jóhann Sigfússon sem stöndum að Profilm erum búin að gera þessa mynd saman ásamt frábærum alþjóðlegum hópi fólks. Maður gerir lítið einn í þessum bransa,“ segir Anna Dís.

Þar má nefna að Anna Dís leikstýrði heimildarmyndinni og skrifaði handritið og stjórnaði Jóhann kvikmyndatöku. Af leikurum sem koma fram ber helst að nefna leikkonurnar þrjár sem leika Guðríði á mismunandi æviskeiðum.

„Sú sem leikur mest er Kristín Ísold Jóhannesdóttir. Hún er nítján ára gömul og það var alveg frábært að vinna með henni. Móðir hennar, Elfa Björk Vigfúsdóttir, leikur Guðríði eldri og dóttir okkar [Jóhanns], María Dís Jóhannsdóttir, leikur Guðríði þegar hún er barn svo við förum vel yfir æviskeið Guðríðar þar sem við erum með þrjár mismunandi Guðríðar með okkur í þessu.“

Tóbak í silki fyrir höfðingjann

Það er ekki bara fjöldi fólks sem kemur að gerð heimildarmyndarinnar heldur koma einnig margir staðir við sögu.

„Við kvikmynduðum myndina hér heima á Íslandi, í Skotlandi, í Noregi og í Kanada, meðal annars með frumbyggjum þar. Það var frábær lífsreynsla og yndislegt fólk og urðu til margar skemmtilegar sögur í kring um það,“ segir Anna.

Það tók drjúgan tíma að fá að kvikmynda hjá frumbyggjunum í Kanada en að lokum var það þess virði.

„Það tók marga mánuði að fá leyfi til þess. Fyrst þurfti að fá einn indjánahöfðingjann til að samþykkja, sem vísaði síðan á þann næsta. Þegar við hittum þann indjánahöfðingja sem var með okkur í upptökunum færðum við honum tóbak að þeirra sið, innbundið í rauðan silkiklút, og þökkuðum honum fyrir að taka á móti okkur og að leyfa okkur að kvikmynda á svæði hans. Einmitt á því augnabliki flaug tignarlegur örn yfir okkur. Hann tók andann á lofti og sagði: „Örninn er kominn. Þið megið bara gera hvað sem þið viljið!“ Örninn er mikilvægt tákn hjá indjánunum, táknar eina fuglinn sem snert hefur andlit skaparans, auk þess líta þeir á fjaðrir hans sem heilagar. Þeir sýndu okkur þann heiður að blessa okkur öll í upptökuteyminu með sérstökum indjánanöfnum, „spirit names“ eins og þeir kölluðu það. Við þá athöfn vorum við blessuð með arnarfjöðrum, reykelsum og góðum óskum. Þetta er dásamlegt náttúrufólk og hitti okkur öll í hjartastað.“

Guðríður hin víðförla er sköpuð í samstarfi við ýmsa aðila.

„Við tölum við RÚV og fengum frá þeim vilyrði um stuðning. Svo fengum við góðan stuðning frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og í þessu ferli talaði ég við BBC í Skotlandi og fékk þar meðframleiðendur sem voru með okkur alla leið. Á samtölum okkar við þessa aðila varð okkur ljóst að það höfðu fáir heyrt um þessa sögu þó að allir væru spenntir fyrir víkingum. Þeir sem við töluðum við fengu líka strax áhuga á Guðríði og sögu hennar, meðal annars vegna þess að hún er nánast óþekkt meðal almennings.“

Eins og áður segir var það Önnu Dís mikilvægt að sagan kæmist til skila til almennings og einnig út fyrir landsteinana.

„Þetta verður að vera aðgengilegt. Við búum myndir okkar til eins og við séum að búa þær til fyrir erlenda áhorfendur. Við göngum því út frá því að áhorfendur hafi ekki neina grunnþekkingu á viðfangsefninu.“

Anna Dís er framkvæmdastjóri kvikmyndafyrirtækisins Profilm, sem fagnaði 30 ára afmæli nýverið.

„Við búum til sjónvarpsefni og höfum búið til sjónvarpsefni hjá Profilm í 15 ár, mest fyrir erlendan markað vegna þess að þar er markaðurinn til að dreifa heimildarmyndum. Stuðningur að heiman er þó líka alltaf gríðarlega mikilvægur, yfirleitt alltaf upphafið á ferlinu og það gerist lítið án hans. Við búum þó yfirleitt til alþjóðlegar heimildarmyndir, allar okkar myndir hafa verið með alþjóðlega dreifiaðila, þessi er það líka og er þegar farin að seljast þó svo að kaupendur séu ekki búnir að sjá lokaútgáfuna. Guðríður er því að hefja „nýtt ferðalag“ á sjónvarpsstöðvar út um allan heim og kvikmyndahátíðir.“

Leikkona Crown les undir

Imelda Staunton, þekkt bresk leikkona sem Anna Dís lýsir sem einni af þjóðargersemum Breta, er þulur heimildarmyndarinnar.

„Þegar ég bókaði hljóðstúdíóið okkar í London til að taka upp þulartextann sögðu þau einmitt „Imelda, she is a national treasure.“ Hún mun fara með hlutverk Elísabetar drottningar í næstu þáttaröð af Crown og eru um þessar mundir í sýningu þættirnir Flesh and Blood þar sem Staunton fer með eitt aðalhlutverkanna.

Mig langaði að sjálfsögðu að fá stærsta nafnið sem ég gæti fengið til þess að lesa undir þessa mynd, það auðvitað hjálpar sölunni á heimildarmyndinni á enskumælandi svæðum. Staunton var alveg frábær. Við sendum henni upptökur af framburði íslensku nafnanna í þulartextanum svo hann færi ekki á milli mála áður en hún mætti í upptökuna. Það var virkilega dásamlegt að fá hana með okkur í þetta og við vorum að grínast við hana að við værum reiðubúin að hjálpa henni að sækja um íslenskan ríkisborgararétt ef hún væri orðin leið á þessu Brexit-dæmi,“ segir Anna og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Undanfarin tvö ár hefur þú leitt hugann að því hvað skiptir þig máli í lífinu. Þú telur þig hafa náð nokkuð góðum árangri í þeirri leit. Haltu áfram á þessari braut.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Emil Hjörvar Petersen
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Undanfarin tvö ár hefur þú leitt hugann að því hvað skiptir þig máli í lífinu. Þú telur þig hafa náð nokkuð góðum árangri í þeirri leit. Haltu áfram á þessari braut.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Emil Hjörvar Petersen