Með öndina í hálsinum

Adam Sandler í Uncut Gems að sýna viðskiptavinum forljótan skartgrip.
Adam Sandler í Uncut Gems að sýna viðskiptavinum forljótan skartgrip.

Kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins, Brynja Hjálmsdóttir, er hæstánægð með Netflix-myndina Uncut Gems og gefur henni fjórar og hálfa stjörnu í einkunn. 

Brynja skrifar m.a: „Bræðurnir Josh og Benny Safdie hafa leikstýrt nokkrum myndum á ferli sínum en vöktu fyrst meiri háttar athygli með myndinni Good Time sem kom út árið 2017. Good Time var dramatísk hasarmynd með Robert Pattinson í aðalhlutverki og fjallaði um ungan smákrimma sem reynir að fá bróður sinn lausan úr fangelsi og lendir í ýmsum hremmingum. Myndin vakti sérstaklega athygli fyrir mjög afgerandi stíl. Atburðarásin er ofsafengin og óþægileg, sem er undirstrikað með hröðum klippingum og ágengri kvikmyndatöku. Þá er áferð myndarinnar afar sérstök, hún er skotin á filmu og litirnir eru æpandi skarpir, stundum nánast óraunverulegir, sem gefur myndinni sýkadelískt yfirbragð.

Þessi höfundareinkenni birtast öll í nýjustu mynd bræðranna, Uncut Gems, sem framleidd er af Netflix og er aðgengileg á streymisveitunni. Myndin fjallar um útsmogna skartgripasalann Howard Ratner, sem svífst einskis þegar kemur að því að græða peninga. Hann trúir statt og stöðugt á þá speki að maður þurfi að eyða peningum til að græða peninga sem hefur sökkt honum í ansi djúpa skuldasúpu sem hann er einhvern veginn alltaf alveg á leiðinni að synda upp úr en hefur ekki tekist það enn. Nú er hann með áætlun. Hann hefur keypt hnefastóran óslípaðan ópalstein frá Eþíópíu og skráð hann á uppboð, þar sem hann reiknar með að tífalda fjárfestinguna og ganga frá borði með milljón dali.“

Brynja lýsir upplifuninni af því að horfa á myndina svo: „Ímyndaðu þér að þú sitjir við matarborð með nokkrum gestum. Þegar gestgjafinn kemur með matinn á stóru fati skrikar honum fótur. Allir gestirnir standa upp í einu í tilraun til að bjarga gestgjafanum og matnum, sem er í þann mund að detta í gólfið. Allir góla upp yfir sig, tala hver yfir annan, það sullast úr glösum og hnífapör detta í gólfið með háu glamri. Samt tekst ekki að bjarga fatinu, maturinn er ónýtur. Að horfa á Uncut Gems er svolítið eins og upplifa svona augnablik stanslaust í tvo klukkutíma. Það er stórkostlega sterk upplifun og hún er ekki endilega notaleg.“

Kvikmyndina segir hún fjalla um fólk sem er á einn eða annan hátt fársjúkt af óskhyggju og græðgi. Steinninn, með sinni margslungnu litadýrð, verði táknrænn fyrir drauminn sem sé  alltaf utan seilingar, drauminn um auð, völd og afrek, sem persónunar vaði eld og brennistein til að öðlast.

Sandler þverstæðan

Adam Sandler leikur aðalhlutverkið og ber myndina á herðum sér, að sögn Brynju sem telur hann frámunalega góðan í myndinni. Hún segist þó hafa blendnar tilfinningar til Sandlers sem hafi leikið í og fjöldaframleitt grínmyndir sem flestar séu svívirðilega lélegar. 

Uncut Gems er hins vegar svakaleg þeysireið, að mati Brynju og svo taugatrekkjandi að hún var með öndina í hálsinum allan tímann. Dóminn má lesa í heilda í Morgunblaðinu í dag, 26. mars. 

Þess má að lokum geta að fjallað verður um myndina í næsta þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ sem verður aðgengilegt hér á mbl um hádegi á morgun. 

Hér má sjá stiklu fyrir Uncut Gems:



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar