Í dag er síðasti dagur Harry Bretaprins og Meghan hertogaynju af Sussex sem „senior“ meðlimir konungsfjölskyldunnar. Hjónin tilkynntu í byrjun árs að þau hyggðust láta af konunglegum skyldum sínum, afþakka laun frá konungsfjölskyldunni og stefna að því að gerast fjárhagslega sjálfstæð.
Hjónin kvöddu fylgjendur sína áInstagram-reikningi sínumSussexRoyal í gærkvöldi. Af kveðjunni að dæma hyggjast þau ekki halda áfram að nota þann reikning. Þau hafa sóst eftir einkaleyfi á nafninu SussexRoyal en samkvæmt heimildum breskra fjölmiðla lagðist drottningin gegn því að þau notuðu konunglega titla til markaðssetningar.
Hjónin munu láta af titlum konunglegum titlum sínum og hyggjast endurgreiða fé fyrir endurbætur á heimili þeirra, Frogmore cottage, sem verður aðsetur þeirra þegar þau koma til Bretlands á næstu árum. Þá hefur Harry óskað eftir því að hann verði bara kallaður Harry, en ekki Harry Bretaprins.
Stuttu eftir tilkynninguna í janúar fluttu þau til Kanada þar sem þau dvöldu fram til loka febrúar þegar þau fóru í stutta Bretlandsheimsókn. Þar mættu þau á sína síðustu viðburði sem meðlimir konungsfjölskyldunnar.
Nýlega færðu þau sig svo um set yfir til heimaborgar Meghan, Los Angeles í Bandaríkjunum, en móðir hennar, Doria Ragland býr þar. Þau hafa gefið út að þau hyggist búa í Norður-Ameríku í framtíðinni en stefna á tíðar heimsóknir til Bretlands.
Meghan virðist vera byrjuð að vinna í öðrum verkefnum en þann 3. apríl kemur út náttúrulífsmynd hjá Disneynature, Elephant, sem Meghan talar inn á.
Mikil umræða skapaðist um „útgöngu“ hjónanna úr bresku konungsfjölskyldunni í janúar og var útgöngunni líkt við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu,Brexit, og fékk því nafnið „Megxit“. Þau hafa hlotið bæði gagnrýni og hól fyrir ákvörðunina.
Tilkynning Harry og Meghan virtist koma mörgum á óvart á sínum tíma og leit allt út fyrir að aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar hafi ekki vitað af henni fyrr en hún birtist í fjölmiðlum. Drottningin boðaði til fjölskyldufundar nokkrum dögum seinna. Þann 13. janúar sendi hún svo frá sér tilkynningu þess efnis að hún styddi ákvörðun hjónanna þó hún kysi heldur að þau yrðu um kyrrt.
Í tilkynningunni kom einnig fram að hún myndi gefa þeim tíma til þess að hnýta um lausa enda. Nú er sá tími liðinn og síðasti dagur þeirra að kvöldi kominn.