Fíasól heldur til Rússlands

Kristín Helga Gunnarsdóttir.
Kristín Helga Gunnarsdóttir. mbl.is/Hari

Sagnaflokkur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um uppátæki Fíusólar er væntanlegur á rússnesku og verða sögurnar, sem hafa komið út á sex bókum hér, gefnar út með sama formi af forlaginu Gorodets með upprunalegum teikningum Halldórs Baldurssonar.

Fyrsta bókin um Fíusól kom út árið 2004 og fjórar til á næstu árum á eftir og slógu sögurnar strax í gegn hjá íslenskum lesendum. Meðal unnenda sagnanna voru börn hjónanna Tanyu Zharov og Lárusar Jóhannessonar, Mikael, Katrín og Sofia, og segja má að það sé þeim að þakka að Fíasól birtist senn rússneskumælandi börnum.

Boris Zharov, þýðandi Fíusólar, með Tanyu dóttur sinni, Lárusi Jóhannessyni …
Boris Zharov, þýðandi Fíusólar, með Tanyu dóttur sinni, Lárusi Jóhannessyni manni hennar og barnabörnunum Mikael, Katrínu og Sofiu. Mynd tekin er Boris kom 2008 og vildi heimsækja söguslóðir Egils sögu.

Tanya, sem er aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á rússneska foreldra en flutti til Íslands með móður sinni þegar hún var sjö ára gömul. Faðir hennar, Boris Zharov, starfaði áratugum saman sem kennari í dönsku við háskólann í Pétursborg, og í mörg ár áður en hann fór á eftirlaun sem deildarforseti norrænudeildarinnar og kenndi þá líka forníslensku.

Boris hefur þýtt mikið úr dönsku og norsku gegnum tíðina og er sérfræðingur í verkum H.C. Andersens. Þegar hann kom í heimsókn til fjölskyldu sinnar á Íslandi árið 2008 voru barnabörnin spennt fyrir Fíusól og þegar afi þeirra snéri heim voru fyrstu bækurnar um stelpuna með í för.

„Ég tók upphaflega með mér heim til Pétursborgar tvær bækur um Fíusól og ákvað að prófa að þýða þær á rússnesku,“ segir Boris í bréfi til blaðamanns. „Ég var lengi með þá fyrstu en sú næsta gekk betur.“

Kynnast óþekktarorminum

Boris kom aftur til Íslands árið 2014 og þá kom Tanya á fundi þeirra Kristínar Helgu, sem var þá orðin formaður Rithöfundasambands Íslands. Tanya segir að Boris hafi síðan lokið við að þýða fyrstu fimm bækurnar og tekið að reyna að koma þeim á framfæri við forlög. Nokkrum sinnum munaði litlu að það tækist. En hann kynnti Fíusól fyrir nemendum.

„Þegar ég var að kenna nemendum í norrænu deildinni í Pétursborg forníslensku ákvað ég að prófa að leyfa þeim að lesa um Fíusól sem ég átti ofan í skúffu og var hægt að nota sem kynningu á nútímaíslensku,“ segir Boris. „Nemendunum fannst hún skemmtileg og ég man að einn sagði að það væri einhver sameiginlegur þráður við Íslendingasögurnar.

Ég hef þýtt töluvert úr dönsku, norsku og sænsku og fór að leggja það í vana minn að nefna alltaf við útgáfur sem voru að biðja mig um að þýða eitthvað úr þeim tungumálum að ég ætti tilbúna þýðingu um íslensku stelpuna Fíusól. Það tók margar tilraunir sem ekki höfðust en nú er loksins komið að því að Fíasól komi út í Rússlandi, hjá útgáfunni Gorodets, svo að rússneskir krakkar og fullorðnir geti kynnst þessum óþekktarormi,“ segir Boris.

Ótrúlega skemmtilegt

Forsvarsmenn vinafélags Norðurlanda sem starfrækt er í Moskvu fengu leyfi hjá Kristínu Helgu og Boris til að birta þýðingar tveggja sagna á vef félagsins og þar hafa þær talsvert verið lesnar, og meðal annars af nemendum skóla í Moskvu. „Þetta er skóli með norrænar tengingar og ég hef verið á skæpfundi með þeim, þar sem við ræddum um Fíusól – og líka Halldór Laxness,“ segir Kristín Helga og gleðst yfir því að rússneskumælandi börn fái að kynnast sögunum. „Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt, tær snilld!“ segir hún. Og Fíasól vekur greinilega áhuga; einhverjir hafi leitað til mannanafnanefndarinnar í Moskvu og sótt um að skíra barn Fíusól en því hafi verið hafnað.

Tanya hefur verið föður sínum innan handan við þýðingarnar og hefur einnig séð um samskiptin við rússneska forlagið og samningagerð. Hún las fyrstu þýðingarnar yfir og nú þegar viðræður við forlagið í Rússlandi fóru af stað þá kom í ljós að Kristín Helga hafði bætt við bók um stelpuna fyrir jólin 2018 og Boris hóf þýðingu á henni. „Hann hefur þýtt hana á síðustu vikum og ég lesið prófarkirnar,“ segir Tanya sem aðstoðaði Boris einnig við að átta sig á merkingu nýrra orða í íslensku, til að mynda hvaða leikföng væru á óskalista Fíusólar.

Upphaflega sýndi rússneska forlagið lítinn áhuga á að nota svarthvítar teikningar Halldórs, vildi láta teikna nýjar eða lita þær, að sögn Tanyu. En þegar íslensku bækurnar voru sendar til forlagsins breyttist hljóðið í útgefendunum sem þóttu þær einstaklega fallegar og nú munu sögurnar koma út með sama hætti, sex talsins, með teikningunum. „Útgáfusamningarnir eru undirritaðir en vírusinn sem hefur alls staðar áhrif hefur valdið okkur áhyggjum. En forlagið segir okkur að bækurnar komi út og það er mjög ánægjulegt,“ segir Tanya.

Tíu þátta röð um Fíusól

Stefnt er að því að kvikmynda tíu þátta röð um Fíusól og ævintýri hennar hér á landi. Kristín Helga vinnur að handriti ásamt kanadískum höfundi, Carly May Borgstrom, en framleiðendur þáttanna eru Hlín Jóhannesdóttir og fyrirtæki hennar Ursus Parvus, og Junafilms í Þýskalandi.

„Við Carly May sátum saman í fyrrasumar og skrifuðum handritið en það var kominn styrkur fyrir það og handritið á að vera tilbúið í vor,“ segir Kristín Helga og bætir við að framleiðendur vinni nú að því að stækka hópinn sem kemur að framleiðslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið hrókur alls fagnaðar að undanförnu og ættir að gefa sjálfum þér frí frá félagslífinu. Gefðu þér tíma til að slaka á.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið hrókur alls fagnaðar að undanförnu og ættir að gefa sjálfum þér frí frá félagslífinu. Gefðu þér tíma til að slaka á.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup