Ljósmyndatímaritið Gobe vekur athygli á íslenska ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni, sem er betur þekktur sem RAX, í greininni „Níu ljósmyndarar sem þú ættir að fylgjast með á Instagram“.
RAX hefur á undanförnum árum sífellt skapað sér stærra nafn í heimi alþjóðlegrar ljósmyndunar og því er ekkert nýtt að ljósmyndir hans dragi að sér erlenda athygli. RAX starfaði á Morgunblaðinu um 46 ára skeið en lét af störfum í byrjun mars.
„Ragnar hefur myndað norðurskautið og íbúa þess í meira en þrjá áratugi svo það er óhætt að segja að Ragnar festi sínar myndir á filmu með þjálfuðu auga. Einlita síða sýnir einlæga tileinkun Ragnars á skörpum og hrikalegum landsvæðum, dýrum og fólki frá Grænlandi, Íslandi og öðrum norrænum slóðum. Ragnar er ljóðrænn sögumaður í gegnum ljósmyndir sem fylgja jafn forvitnilegir myndatextar,“ segir í umsögn Gobe um instagramreikning RAX.
RAX er með tæplega 22.000 fylgjendur á Instagram og má leiða að því líkum að hann beri höfuð og herðar yfir aðra karlmenn á sínum aldri hvað fylgjendafjölda varðar.
Hann er kynntur fyrstur til leiks af níu ljósmyndurum en á listanum má meðal annars finna nútímalega ljósmyndarann Yumna og Chris Smith sem hefur fyllt instagramsíðu sína af ótrúlegum sjálfsmyndum.