Smáskilaboð frá hertogahjónunum Harry og Meghan til Thomas Markle, föður Meghan, hafa verið opinberuð í tengslum við dómsmál Meghan gegn Mail on Sunday að því fram kemur á vef BBC. Skilaboðin voru send rétt fyrir brúðkaup þeirra vorið 2018 en faðir Meghan mætti ekki í brúðkaupið.
Meghan höfðaði mál gegn útgáfufélagi fjölmiðilsins vegna misnotkunar á persónulegum upplýsingum, broti á höfundarrétti og fyrir að breyta bréfi hennar til föður síns þegar handskrifað bréf hennar til föður síns var birt.
Smáskilaboðin sem hafa verið gerð opinber eiga að vera sönnun um hvernig tilvitnanir í skilaboð hennar hafi verið teknar úr samhengi. Málið er sagt hafa skapað ágreining milli Meghan og föður hennar. Í dómsskjölum kemur einnig fram að breskir slúðurmiðlar hafi notað og niðurlægt Thomas Markle. Málið verður tekið fyrir í lok vikunnar.
Thomas Markle fékk hjartaáfall rétt fyrir brúðkaup Harry og Meghan sem fór fram í Windsor á Englandi þann 19. maí 2018. Thomas Markle sviðsetti einnig myndir af sér með götuljósmyndurum.
„Ég hef hringt og sent skilaboð en hef ekkert heyrt frá þér svo vona að það sé í lagi með þig,“ skrifaði Meghan til föður síns þann 5. maí 2018. Daginn eftir sendi hún honum aftur skilaboð eftir að hún sá myndirnar sem faðir hennar tók með hjálp götuljósmyndara. Í skilaboðunum er hún sögð reyna að útvega föður sínum hjálp vegna áreits fjölmiðla.
Þann 14. maí 2018 sendi Thomas Markle Meghan skilaboð þar sem hann biðst afsökunar og segist ekki ætla mæta í brúðkaupið. Meghan reyndi þá að hringja í föður sinn sem svaraði ekki. Harry tók þá til þess bragðs að senda tengdaföður sínum skilaboð.
„Tom, þetta er Harry ég ætla hringja í þig núna. Gerðu það svaraðu, takk fyrir,“ sendi Harry.
„Tom, Harry hérna aftur! Þarf virkilega að tala við þig. Þú þarft ekki að biðjast afsökunar, við skiljum aðstæðurnar en að „gera allt opinbert“ gerir allt bara verra. Ef þú elskar Meg og vilt breyta rétt gerðu það hringdu í mig þar sem það eru tveir aðrir möguleikar sem snúast ekki um að tala við fjölmiðla, sem sköpuðu þessar aðstæður. Svo gerðu það hringdu svo ég get útskýrt. Meg og ég erum ekki reið, við viljum bara tala við þig. Takk,“ skrifaði Harry sem útskýrði með öðrum skilaboðum að viðtal við fjölmiðla myndi koma í bakið á honum. Þau væru þau einu sem gætu hjálpað eins og þau höfðu alltaf reynt.
Lögfræðingar Mail on Sunday verjast af krafti og halda því fram hagsmunir almennings hafi verið í húfi þegar ákveðið var að birta bréf Meghan til föður síns. Lögfræðingarnir halda því fram að breska konungsfjölskyldan, þar á meðal Meghan, reiði sig á umfjöllum fjölmiðla til þess að viðhalda forréttindum sínum.