Sophia Macy, dóttir leikkonunnar Felicity Huffman og leikarans William H. Macy, er komin inn á leiklistarbraut í háskólanum Carnegie Mellon University. Huffman var dæmd í tveggja vikna fangelsi og gert að greiða háa sekt fyrir að reyna að svindla henni inn í góðan háskóla.
Sophia greindi frá því á Instagraminu sínu að hún hafi komist inn í háskólann í gær.
Huffman var hluti af háskólasvindlsmálinu svokallaða sem kom upp í fyrra þar sem fjöldi foreldra í Bandaríkjunum voru ákærðir fyrir að greiða háar upphæðir til að svindla börnum sínum inn í betri háskóla. Í tilviki Huffman lét hún laga SAT-próf dóttur sinnar svo einkunnin væri hærri. Sophia sótti hins vegar ekki um í neinum háskóla með þá einkunn heldur tók sér árs pásu áður en hún fór í háskóla.
„Felicity er svo stolt og þakklát fyrir að Sophia hafi borið höfuðið hátt síðastliðið ár. Þetta voru sársaukafullir og erfiðir tímar en hún komst í gegnum þá með styrk og glæsibrag,“ sagði heimildarmaður People.
Huffman var handtekin í apríl í fyrra. Hún játaði sekt sína fyrir dómara og fyrir vikið fékk hún töluvert styttri fangelsisdóm en ákæruvaldið fór fram á. Hún var dæmd í tveggja vikna fangelsi en endaði á að sitja inn í 11 daga vegna þess að lausnardagur hennar lenti á sunnudegi og hún hafði setið inni einn dag þegar hún var handtekin.
Í tilkynningu í apríl sagði Huffman að dóttir hennar hefði ekki vitað neitt um svindlið á prófinu. „Ég viðurkenni sekt mína og sé eftir því sem ég hef gert með skömm, ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum og mun taka afleiðingunum vegna þeirra,“ sagði Huffman í fyrra.