Um þetta leyti í kvöld hefðu Daði og Gagnamagnið átt að stíga á svið á stóra sviðinu í Rotterdam á seinna undankvöldi Eurovision 2020. Raunin er önnur og ástæðuna þekkir alþjóð — keppninni var aflýst sökum heimsfaraldurs kórónuveiru.
Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari FÁSES (Félags áhugafólks um söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva), ætlaði að vera í Rotterdam kvöld og hefði það verið tíunda keppnin hennar á staðnum, enda er hún með hörðustu Eurovision-aðdáendum landsins.
„Auðvitað hefur maður skilning á því að það eru meiri hagsmunir í húfi en Eurovision. En eins og við höfum oft sagt í FÁSES: Eurovision er ekki ein kvöldstund fyrir okkur heldur er þetta lífsstíll og nánast trúarbrögð. Við eigum öll pínu erfitt núna, maður fór í gegnum öll sex sorgarstigin,“ segir Laufey í léttum tón og á við lost, afneitun, reiði, samningaviðræður, depurð og sátt.
Sjónvarpsstöðvar víða í Evrópu hafa gripið til ýmissa ráða til að sinna Eurovision-þyrstum aðdáendum á þessum fordæmalausu tímum en Laufey segir að í raun sé verið að „strá salti í þessi mjög bitru sár“. „Þetta er búið að vera sárt og það er erfitt að hlusta á lögin og það er erfitt að fylgjast með velgengni Daða og laginu okkar af því að mann langar að vera rosa peppaður en á sama tíma er þetta ákveðin sjálfspíningarhvöt.“
Laufey er sannfærð um að Daði og Gagnamagnið hefðu endað í efstu þremur sætunum í Rotterdam í ár og telur hún að Búlgaría og Litháen hefðu veitt Íslandi samkeppni. Allt eru þetta lönd sem enn bíða eftir sínum fyrsta sigri í keppninni. „Þess vegna hefði þetta verið svo ótrúlega sætt. Við áttum virkilegan séns, auðvitað hefði verið gaman að sjá hvernig Eurovision-ferð Daða og Gagnamagnsins hefði spilast út til að sjá hvort hann hefði átt raunverulega möguleika. Þetta er auðvitað ótrúlega sorglegt, það eina sem maður hugsar núna þegar maður hlustar á framlögin í ár er hvernig þau hefðu komið út á sviði og maður mun aldrei fá svarið.“
Ófáar fjar-Eurovision-keppnir hafa farið fram síðustu vikur og mörg lönd hafa einnig valið sitt uppáhaldsframlag. Daði og Gagnamagnið hafa unnið nokkrar af þessum keppnum, nú síðast Eurostream 2020 sem fram fór um síðustu helgi en fyrirkomulag keppninnar var nánast hið sama og í lokakeppninni sjálfri, hefði hún farið fram.
„Keppnin er haldin af 19 aðdáendasíðum sem fengu rúmlega 80 dómara frá Eurovision-heiminum til að gegna störfum fagdómnefnda og svo var kosning á netinu,“ segir Laufey. Undankeppnir voru haldnar á þriðju- og fimmtudeginum í síðustu viku og komst Daði áfram í lokakeppnina þar sem hann sigraði svo með glæsibrag.
„Við höfðum ofsalega gaman af þessu. Svo hefur Daði líka unnið Eurojury sem hefur verið haldin síðustu fimm ár og hann fékk austurrísku tólfuna og við erum spennt að vita hvað gerist hjá Svíum á fimmtudaginn [í kvöld], hvort hann fái líka tólfuna þar.“
Laufey bendir á að álitsgjafar sænska og finnska sjónvarpsins hafi einnig valið Think About Things sem besta lagið, sem og aðdáendasíður í Ástralíu og Noregi. „Hann er bara á virkilegu flugi. Við áttum ansi góða möguleika og jafnvel möguleika á sigri. Það hefði verið frábært að halda Eurovision á Íslandi 2021 til að auka við landkynninguna fyrir markaðsátak Íslands í kjölfar kórónuveirunnar en það verður aldrei.“
Ljóst er að lögin sem hefðu átt að taka þátt í keppninni í ár mega ekki taka þátt að ári en það er í höndum landanna sjálfra að ákveða hvort sömu listamenn taki aftur þátt. Daði hefur gefið það út að hann sé tilbúinn að taka þátt, með því skilyrði að hann þurfi ekki að taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins hér heima. RÚV hefur ekki gefið upp hvaða leið verður farin að ári.
„Þetta er mikil fórn að fórna Söngvakeppninni sem hefur verið mikill gleðigjafi í okkar svartasta skammdegi og það er jafnvel spurning hvort RÚV fari í samningaviðræður við Daða um að hann flytji kannski þrjú lög í Söngvakeppninni og við kjósum á milli þeirra eða þá að það verði alveg ný keppni og við fáum ekki að sjá meira af Daða,“ segir Laufey.
Hennar fyrsta val væri að senda Daða í keppnina á næsta ári. „Ég er tilbúin að fórna Söngvakeppninni til að sjá Daða á stóra sviðinu,“ segir Laufey sem fullyrðir að hún hafi verið sú fyrsta úr aðdáendakreðsunni sem kveikti á lagi Daða og Gagnamagnsins í forkeppninni 2017 þegar hann laut í lægra haldi gegn Svölu Björgvinsdóttur.
Laufey ætlar að reyna að njóta þessarar óhefðbundnu Eurovison-viku eins vel og hún getur en það mun reynast þrautinni þyngra. „Mann langar helst bara að grafa holu og moka yfir en ég hugsa að ég geri það ekki. Ég mun fylgjast með eins miklu og ég get,“ segir hún og nefnir þar Eurovision-dagskrá RÚV, EBU á Youtube sem og sænska sjónvarpsins.
Eurovison-vika er á RÚV sem hefur til að mynda sýnt frá eldri keppnum. „Mér finnst það frábært framtak hjá RÚV að sýna gamlar keppnir og ég hlakka til að kíkja á það.“ Blaðamanni leikur forvitni á að vita hver uppáhaldskeppni Laufeyjar er en hún segir að svona nokkru megi ekki spyrja Eurovision-aðdáanda að en hún gefur sig að lokum og nefnir keppnina í Aserbaídjan 2012 þar sem Loreen vann með framlag Svía: Euphoria. „Það eru bara skemmtileg lög í þessari keppni en annars hafa allar keppnirnar eitthvað.“
Laufey segir að óneitanlega standi keppnirnar upp úr sem hún hefur verið viðstödd. Hún fór fyrst til Helsinki til 2007 og síðan Óslóar 2010. „Svo hef ég farið á hverju ári síðan 2013.“
Uppáhaldsframlag Laufeyjar í keppninni í ár, fyrir utan Daða, kemur frá Litháen. „Það er rosa mikið dansþema í öllum framlögunum í ár, það eru allir að reyna að saxa inn á þetta TikTok-dansæði. Ég er mjög gamaldags og er nýbúin að ná í TikTok,“ segir Laufey og hlær.
Þrátt fyrir að Eurovision hafi verið aflýst í ár ætlar Laufey að fara í Eurovision-partý á laugardaginn, annað kemur ekki til greina. Hún ætlar auk þess að hlaða á sig öllum Eurovision-varningi sem hún hefur eignast í gegnum árin. „Conchitu-skeggið og alla fánana og FÁSES-peysurnar og Daða-peysuna efst. Það þarf að bólstra þessa Eurovision-depurð með góðum búningum.“
Laufey vonast til að komast á lokastig sorgarferlisins í partýinu og sætta sig við orðinn hlut. „Þetta er auðvitað fyrstaheimsvandamál að Eurovison hafi verið aflýst. Það eru verri hlutir að gerast. Munum handþvottinn!“