Þykir vænt um viðurkenninguna

Ingibjörg Björnsdóttir hlýtur heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands árið 2020.
Ingibjörg Björnsdóttir hlýtur heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands árið 2020. mbl.is/Arnþór

„Mér þykir gríðarlega vænt um þessa viðurkenningu,“ segir Ingibjörg Björnsdóttir sem fyrir stundu hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2020 þegar þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu. 

Í samtali við Morgunblaðið segir hún verðlaunin hafa komið sér ánægjulega á óvart. „Ég hef gegnum tíðina aðallega verið upptekin af því að njóta þess að sinna dansinum frá ansi mörgum hliðum,“ segir Ingibjörg sem starfað hefur sem dansari, danshöfundur, kennari, skólastjóri og fræðimaður á löngum og farsælum ferli. 

Spurð af hverju dansinn hafi orðið fyrir valinu sem lífsstarf á sínum tíma segir Ingibjörg hluti oft tilviljunum háða. „Eins og allir krakkar hafði ég mjög gaman af því að dilla mér við músík,“ segir Ingibjörg sem elti vinkonu sína í barnaskóla í dansnám hjá Sigríði Ármann. „Eftir árið fór ég í inntökupróf hjá Listdansskóla Þjóðleikhússins sem var þá að byrja sitt annað starfsár haustið 1953,“ segir Ingibjörg og rifjar upp að hún hafi verið aðeins ellefu ára þegar hún tók strætó niður í bæ til að fara í inntökuprófið og ekki sagt foreldrum sínum neitt fyrr en hún gat tilkynnt þeim að hún hefði komist inn í skólann. Kennarar hennar þar voru hjónin Erik Bidsted, ballettmeistari Þjóðleikhússins, og Lise Kæregaard, sem voru aðaldansarar Tívólí-ballettsins á sumrin.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Ingibjörgu Björnsdóttur heiðursverðlaun Sviðslistasambands …
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Ingibjörgu Björnsdóttur heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands árið 2020. mbl.is/Arnþór

Það var alltaf eitthvað að gera 

Ingibjörg var dansari við Þjóðleikhúsið 1956-60 og aftur 1964-85 þar sem hún dansaði í barnasýningum, leikritum, söngleikjum, óperettum og óperum. „Það var alltaf eitthvað að gera sem hélt okkur við efnið,“ segir Ingibjörg, sem haustið 1960 hélt til Edinborgar til náms. „Ætlunin var að fara í enskunám í þrjá mánuði, en þetta endaði sem þriggja ára dansnám þegar ég komst inn í ballettskólann,“ segir Ingibjörg sem lauk prófi frá Scottish Ballet School. „Ég byrjaði að sækja tíma í ballettskólanum til að halda mér við meðan ég væri úti, en fljótlega tók dansinn yfir og enskunámið sat á hakanum.“

Að námi loknu sinnti Ingibjörg kennslu hjá Sigríði Ármann og víðar þar til hún réð sig sem listdanskennara við Listdansskóla Þjóðleikhússins frá 1965. Árið 1985 tók hún við starfi skólastjóra sem hún sinnti meðfram kennslu til 1991 þegar skólinn var lagður niður og Listdansskóli Íslands var stofnaður, en þar var Ingibjörg skólastjóri og kenndi dans til 1997. „Meðan skólinn tilheyrði enn Þjóðleikhúsinu samdi ég iðulega dansa fyrir sýningar þar,“ segir Ingibjörg sem hefur einnig samið dans fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Sjónvarpið.

Ingibjörg vann ásamt fleirum að stofnun Íslenska dansflokksins 1973. „Frá því Félag íslenskra listdansara var stofnað 1947 var það stóra málið að stofna ætti atvinnudansflokk hérlendis sem starfaði við Þjóðleikhúsið,“ segir Ingibjörg og rifjar upp að velvild Sveins Einarssonar, sem var ráðinn þjóðleikhússtjóri 1972, í garð dansins hafi skipt sköpum.

Sjálfsagður hluti af tilverunni

„Dansinn á Íslandi hefur alltaf þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum,“ segir Ingibjörg og tekur fram að ástæður þessa séu margar. „Ein þeirra er sú að dansinn hefur að miklu leyti verið verk kvenna og konur hafa staðið í forsvari fyrir þessa listgrein. Önnur ástæða er að dansarar eru oft fremur ungir og nánast litið á þetta sem skemmtun fyrir unglinga sem engin alvara sé í. Þriðja ástæða sem mætti nefna er að dans var okkur Íslendingum ekki mikið í blóð borinn,“ segir Ingibjörg og rifjar upp að kirkjan hafi fyrr á tímum haft horn í síðu dansins. 

„Sem betur fer er öldin önnur núna og viðhorfið hefur breyst til batnaðar með tilkomu Íslenska dansflokksins. Það er afar ánægjulegt að upplifa þá miklu grósku sem er í dansinum hér á landi nú um stundir. Stórir hópar hæfileikaríkra barna og ungra kvenna og karla dansa í söngleikja- og barnasýningum leikhúsanna og á hverju ári eru sýnd mörg verk íslenskra atvinnudanshöfunda og dansara, þar með taldar reglulegar sýningar Íslenska dansflokksins,“ segir Ingibjörg og tekur fram að sér þyki afar vænt um það hversu útbreiddur dansinn er orðinn. „Þannig eru það ekki aðeins þeir sem hafa stundað dansnám í lengri eða skemmri tíma sem dansa. Út um allt má sjá krakka æfa nýjustu danssporin,“ segir Ingibjörg og nefnir sem dæmi hversu dansinn er áberandi á Skrekk á hverju ári. „Dansinn á að vera sjálfsagður hluti af tilverunni og fólk ófeimið við að hreyfa sig við tónlist.“ Ítarlegar er rætt við Ingibjörgu í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta hugfallast, þótt allt gangi ekki samkvæmt áætlun. Málið er bara að halda ró sinni, hvað sem á dynur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta hugfallast, þótt allt gangi ekki samkvæmt áætlun. Málið er bara að halda ró sinni, hvað sem á dynur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav