Bandaríski leikarinn Danny Masterson er ákærður fyrir að hafa nauðgað þremur konum á heimili sínu í Hollywood Hills, að sögn saksóknara.
Masterson er helst þekktur fyrir hlutverk sín í That '70s Show og The Ranch en hann er sakaður um að hafa beitt konurnar valdi, hrætt þær og nauðgað þeim í þremur aðskildum atvikum á árunum 2001 til 2003. Þær voru allar á þrítugsaldri þegar meintar árásir áttu sér stað.
Masterson hefur áður neitað ásökunum um kynferðisofbeldi en hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi ef hann er sakfelldur í öllum ákæruliðum.
Saksóknarar felldu tvö önnur mál, sem einnig fólu í sér ásakanir um kynferðisofbeldi, á hendur Masterson vegna skort á sönnunargögnum. Þá eru meint brot í málunum tveimur fyrnd.
Masterson gerði garðinn frægan þegar hann lék Steven Hyde í þáttaröðinni That '70s Show en helstu mótleikarar hans þar voru Mila Kunis og Aston Kutcher.
Masterson lék aftur með Kutcher The Ranch sem framleidd var af Netflix en var rekinn árið 207 eftir að lögreglan í Los Angeles staðfesti að til rannsóknar væri fjöldi nauðganaásakana á hendur Masterson.
Masterson er í vísindakirkjunni en í fyrra höfðuðu fjórar konur mál gegn Masterson og kirkjunni. Þær sögðust hafa verið áreittar í kirkjunni eftir að þær tilkynntu lögreglunni í Los Angeles að þær hefðu verið beittar ofbeldi.
Á þeim tíma lýsti Masterson ásökununum sem fáránlegum.
Áætlað er að Masterson verði leiddur fyrir dómara í september.