Raunveruleikastjarnan June Shannon, betur þekkt sem Mama June, opnaði sig um fíkniefnaneyslu sína í nýjasta þætti af Mama June: Family Crisis.
June segist hafa verið komin í slæman vítahring með kærasta sínum Geno og á tímabili hafi þau notað fíkniefni og lyfseðilsskyld lyf að andvirði 2.500 bandaríkjadala á dag. June nefndi lyfseðilsskyldu lyfin Fioricet og Xanax auk fíkniefnisins metamfetamíns.
„Eina ástæðan fyrir því að ég seldi húsið var af því ég var algjörlega á kúpunni. Af því að á þeim tíma vorum við í frekar harðri neyslu,“ sagði June. Hún seldi hús sitt í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum síðastliðin haust og flökkuðu hún og kærastinn hennar á milli hótela og spilavíta næstu mánuði.
Í mars á síðasta ári var hún handtekin fyrir vörslu fíkniefna og hefur samband hennar við börnin sín verið erfitt síðan þá. Dóttir hennar Alana, betur þekkt sem Honey Boo Boo, flutti þá til eldri systur sinnar, Lauryn, betur þekkt sem Pumpkin.
Þær systur hafa biðlað til móður sinnar í gegnum raunveruleikaþættina og á samfélagsmiðlum að hætta í neyslu og koma aftur til þeirra. Þegar heimsfaraldurinn skall á fann June svo leiðina aftur til barna sinna og hefur reynt síðustu vikur að koma sér aftur á beinu brautina.