Leikkonan Lori Loughlin og eiginmaður hennar Mossimo Giannulli hafa þurft að gjalda fyrir gjörðir sínar, bæði hjá hinu opinbera og í samfélaginu í Los Angeles.
Hjónin hafa játað fyrir dómara að hafa greitt háar upphæðir til að koma dætrum sínum tveimur inn í góðan háskóla. Dæmt hefur verið í máli þeirra og þurfa þau bæði að sitja inni fyrir glæpi sína. Í kjölfarið ákváðu þau að segja upp aðild sinni að sveitaklúbbnum Bel-Air Country Club.
Loughlin og Giannulli hafa misst fjölda vina á meðan málið var til rannsóknar.
„Þau hafa misst mikið af vinum síðan háskólasvindlsmálið var gert opinbert. Fólk hefur fordæmt gjörðir þeirra. Þau hafa fundið vel fyrir því. Þau hafa verið aðilar að sveitaklúbbnum í mörg ár. Húsið sem þau búa í núna er með útsýni yfir golfvöllinn. Margir vina þeirra eru í sveitaklúbbnum,“ sagði heimildarmaður People um málið.
Samkvæmt gögnum sem TMZ hefur undir höndum hafði stjórn sveitaklúbbsins tekið aðild hjónanna að klúbbnum fyrir á fundi. Stjórnin kaus um hvort það ætti að reka þau tímabundið úr klúbbnum á meðan þau sætu í fangelsi og var það samþykkt.
Fyrrverandi forseti klúbbsins, Michael Gallagher, var óánægður með ákvörðun stjórnarinnar og sagði það ekki kunna góðri lukku að stýra að leyfa dæmdum glæpamönnum að eiga aðild að klúbbnum.
„Þessi fordæmalausa ákvörðun stjórnarinnar að leyfa dæmdum glæpamönnum að halda aðild að klúbbnum mun valda óafturkræfum skaða á orðspori klúbbsins og meðlima hans,“ sagði Gallagher í bréfi sínu til stjórnarinnar.
Vinir hjónanna segja að þau hafi verið uppnámi yfir að þurfa að segja upp aðild sinni að klúbbnum en þau hafi ekki séð neitt annað í stöðunni.
„Klúbburinn hefur verið mikilvægur hluti af félagslífi þeirra lengi. Þau vildu ekki hætta, en þau langaði ekki heldur að vera hluti af drama innan klúbbsins,“ sagði heimildarmaður People og bætti við að þeim hefði ekki fundist þau lengur velkomin.