Skítamórall sló heldur betur í gegn á tónleikum sínum í Hörpu sl. föstudagskvöld en tónlist hljómsveitarinnar hefur verið mikið í spilun hjá landsmönnum undanfarið. Lagið Aldrei ein með „Skímó“ hækkar sig um 12 sæti á Tónlistanum frá því í síðustu viku og er því hástökkvari vikunnar en það vermir nú 20. sæti á listanum. DJ Dóra Júlía greindi frá þessu á K100 á sunnudag.
Lagið Blinding Lights með The Weeknd hreppir enn og aftur fyrsta sætið á Tónlistanum en þessi skotheldi smellur virðist alltaf ná að komast aftur á toppinn. Íslendingar fylgja fast á eftir kanadísku súperstjörnunni en Ingó Veðurguð er með annað sætið á listanum með lagið Í kvöld er gigg og Bríet því þriðja með lagið Esjan.
Helgi Björns heldur fimmta sætinu á listanum með Það bera sig allir vel og Daði Freyr því sjöunda með eurovisionsmellinum Think About Things.
Tónlistinn, 40 vinsælustu lög landsins, er unninn upp úr gögnum frá Félagi hljómplötuframleiðenda og er eini opinberi vinsældalisti landsins. DJ Dóra Júlía kynnir listann á sunnudögum á K100 á milli 16:00 og 18:00. Meðal gagna sem notuð eru við vinnslu listans eru spilanir á Spotify.
Listann í heild sinni finnur þú með því að smella hér.