Stjörnukokkurinn Gordon Ramsay hefur síðustu vikuna verið við tökur á nýjum sjónvarpsþætti á Vestfjörðum. Ragnar Eiríksson, kokkur á Vínstúkunni Tíu dropum, hefur verið honum innan handar, og leitt hann í allan sannleikann um íslenska matargerð.
Tökur hófust á Vestfjörðum á mánudag en þeim er nú lokið. Í þáttunum ræðir Ramsay við matvælaframleiðendur, matreiðslumenn og safnara og kynnir sér íslenskt hráefni.
Þegar mbl.is náði á Ragnar var hann staddur í ausandi rigningu á Ísafirði, rétt eins og Ramsay sjálfur. Sagði hann gaman að geta kynnt hráefni á Íslandi fyrir Ramsay.
Gordon Ramsay hefur mörgum sinnum komið til Íslands enda mikill laxveiðimaður, og hann hefur áður gert íslenskri matarmenningu skil í þáttum sínum, en þó ekki í þeirri mynd sem nú er. Stór hópur var með Ramsay í för og starfsliðið í þremur hópum svo hægt væri að taka upp samtímis á nokkrum stöðum.
Þótt Ramsay sé þekktur fyrir að geta verið hvass og óvæginn í þáttum sínum, segir Ragnar að hann sé algjör ljúflingur í eigin persónu. „Hann er held ég bara ógnvekjandi þegar hann kýs að vera ógnvekjandi,“ segir Ragnar. „Annars er hann þægilegur og hress, en líka mjög virkur og einbeittur.“
Ragnar var áður yfirkokkur á Dill, sem var fyrsti íslenski staðurinn til að hljóta Michelin-stjörnu.Hann viðurkennir að það hafi komið á óvart að fá símtal frá framleiðsluteymi þáttanna og vera beðinn um að leiðbeina Ramsay um landið. „En ég sagðist bara vera til í allt, og þetta er búin að vera skemmtileg ferð.“