Beatrice prinsessa gekk í dag að eiga ítalska fasteignajöfurinn Edoardo Mapelli Mozzi í leynilegri athöfn í All Saints kapellunni í Windsor. Rétt um tuttugu manns voru viðstaddir athöfnina en á meðal gesta voru Elísabet II Bretlandsdrottning, Filippus prins og foreldrar hinna nýgiftu.
Til stóð að Beatrice prinsessa og Mozzi giftust við hátíðlega athöfn í maí en fresta þurfti athöfninni um óákveðinn tíma vegna kórónuveirunnar. Þá hefur líka faðir brúðarinnar, Andrés prins, staðið í ströngu undanfarið vegna tengsla sinna við barnaníðinginn Jeffrey Epstein.