Mikið hefur gengið á að undanförnu hjá þeim sem tengst hafa sjónvarpsþáttunum Glee. Hneykslismál og dularfull andlát hafa herjað á leikarana. Margir eru vissir um að á þáttunum hvíli álög. Glee voru vinsælir gamanþættir sem sýndir voru á árunum 2009 til 2015.
Fyrst ber að nefna skelfilegt andlát leikkonunnar Naya Rivera sem drukknaði af slysförum fyrir skemmstu. Lík hennar fannst í Piru vatni í Kaliforníu en þar hafði hún verið að synda ásamt ungum syni sínum. Talið er að hún hafi verið að bjarga syni sínum þegar þau festust í straumi og ekki átt eftir krafta til þess að bjarga sjálfri sér. Rivera var aðeins 33 ára gömul.
Cory Monteith lést á hótelherbergi í Vancouver 2013. Hann er talinn hafa látist eftir að hafa tekið ofstóran skammt af fíkniefnum. Þá hafa margir aðdáendur þáttanna veitt því athygli að lík Riveru fannst á sama degi og lík Monteith sjö árum fyrr. Monteith var 31 árs.
Mark Salling svipti sig lífi 2018. Hann hafði hlotið dóm fyrir vörslu barnakláms en komst hjá 20 ára fangelsisvist með því að semja við saksóknara um að afplána fjögur til sjö ár í fangelsi. Þá var hann einnig sakaður um nauðgun. Hann var 35 ára að aldri.
Becca Tobin missti unnusta sinn á voveiflegan hátt árið 2014. Matt Bendik var skemmtistaðaeigandi og fannst látinn á hótelherbergi.
Lea Michele hefur mátt þola mikinn mótbyr eftir að upp komst um háttalag hennar bak við tjöldin. Hún er sögð hafa lagt meðleikara sína í einelti, sýnt kynþáttafordóma og almennan dónaskap. Í kjölfar fréttanna hefur hún misst ýmsa samstarfssamninga.