Í lítilli skrifstofu á þriðju hæð í Gimli, með útsýni yfir malarbílastæði fyrir utan Háskóla Íslands, hefur fjórum heimspekinemum verið komið saman til að takast á við stórar spurningar sem kórónuveirufaraldurinn hefur vakið.
Verkefnið ber nafnið „Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum,“ og verður unnið í sumar á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna.
Verkefnastjórar verkefnisins eru Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði, Finnur Ulf Dellsén, dósent í heimspeki, og Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki og formaður stjórnar Siðfræðistofnunnar.
„Við erum að reyna að finna út hvað fór fram, og hvað hafði áhrif á ákvarðanir sem voru teknar,“ segir Eyja Margrét. „Eitt af því sem einkennir þetta ástand er hvað það er flókið, og hvað það eru ófullnægjandi upplýsingar. Við erum með sjúkdóm sem enginn veit mikið um, og svo þarf að taka viðamiklar ákvarðanir á grundvelli ónógra upplýsinga.“
Þess vegna kallar núverandi ástand á rannsókn á faraldrinum og viðbrögðunum við honum, svo hægt sé að kortleggja atburði og ákvarðanir sem voru teknar og læra af þeim.
Nemendahópurinn samanstendur af fjórum einstaklingum sem eru í, eða voru að ljúka, námi í heimspeki við háskóla Íslands. Þau eru Ásthildur Gyða Garðarsdóttir, Hörður Brynjar Halldórsson, Vigdís Hafliðadóttir og Victor Karl Magnússon, og ræddu þau við mbl.is um verkefnið.
Á næstu vikum munu þau skrásetja helstu álitamál sem komið hafa upp, og greina þau, með hjálp leiðbeinenda, út frá heimspeki- og siðferðilegu sjónarhorni. Hver nemandi leggur áherslu á ákveðið svið innan heimspekinnar.
Ásthildur Gyða er nemandi í heimspeki og kynjafræði, og rýnir hún í kófið frá sjónarhóli femínískrar heimspeki. „Ég er að reyna að komast að hvernig þessi faraldur snertir jaðarsetta hópa. Eru þeir teknir með inn í þessa ákvörðunartöku og er verið að hugsa um hagsmuni þeirra?“ segir Ásthildur.
Hörður og Vigdís eru bæði nýútskrifaðir heimspekingar. Vigdís sérhæfir sig í stjórnmálaheimspeki; pælingum um lýðræði, réttlæti og frelsi, úrskýrir hún. „Ég er að skoða siðferðilegt réttmæti og lýðræðislegt lögmæti aðgerða stjórnvalda. Hvaða lærdóm megi draga af því,“ bætir hún við. Hörður mun rannsaka á faraldurinn í gegnum fræðilegan ramma hagnýtrar siðfræði.
Victor Karl er meistaranemi, og mun rannsaka miðlun upplýsinga til almennings og traust til vísinda og sérfræðinga í faraldrinum, og styðst við hugtök úr þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Fyrstu vikur verkefnisins lá hópurinn yfir og gögnum sem birt hafa verið um faraldurinn, en þau hafa þegar hafið að taka viðtöl við helstu áhrifaaðila í svari Íslands við faraldrinum.
„Það er ekki oft sem maður fær að vinna sem heimspekingur,“ segir Vigdís.
„Þetta er mjög viðeigandi starf fyrir heimspekinema. Það er ákveðin heimspekileg yfirvegun sem reynir að ná einhverri heildarsýn,“ heldur hún áfram.
„Við erum að reyna að aga hugsunina og vera gagnrýnin án þess að vetra gagnrýnin á neikvæðan hátt,“ segir Hörður Brynjar. „Það má vel vera að að það sé ýmislegt gott, en það er ekki til gagns að tala aðeins um það sem er gott og hundsa það sem mátti betur fara. Við þurfum að draga lærdóm af því ef við gerum einhver mistök.“
Ásthildur segir krefjandi að vinna að verkefni um faraldurinn á meðan faraldrinum stendur enn yfir. „En það er mikilvægt að skrásetja það sem gerist á meðan það er í gangi. Vonandi, ef eitthvað annað kemur upp í náinni framtíð, þá verðum við búin að koma auga á spurningar sem við sem samfélag þurfum að takast á við. Af hverju þetta gerðist og af hverju var brugðist svona við.“
„Við erum ekki að reyna að finna endanleg svör,“ bætir Hörður við. Heimspeki sé aðferðarfræði sem spyr öðruvísi spurninga og reynir að skilja aðstæður og rökin sem stýra ákvörðunum.
„Heimspekin reynir að sjá allar hliðar málsins, og það getur verið mjög krefjandi,“ segir Hörður.
Í lok verkefnisins mun hópurinn birta skýrslu með niðurstöðum verkefnisins, auk þess að þau munu skrifa greinar og svara spurningum fyrir Vísindavefinn. Á þeim vettvangi munu þau reyna að koma þeim flóknu atburðum síðust mánuði í einfaldara form, og svara heimspekilegum spurningum almennings um faraldurinn.