Tónlistarmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Kanye West brotnaði niður á fyrsta framboðsfundi sínum um helgina. West ræddi um þungunarrof á fundinum og sagði að hann og eiginkona hans Kim Kardashian hafi íhugað að fara í þungunarrof þegar hún gekk með fyrsta barn þeirra.
„Í Biblíunni segir að þú skulir ekki drepa. Ég man að kærastan mín hringdi í mig grátandi og öskrandi. Á þessum tíma var ég rappari, var mikið úti á lífinu og átti margar kærustur,“ sagði West.
Hann segir að Kardashian hafi hringt í hann og sagst vera ólétt og að allt fram á þriðja mánuð meðgöngunnar hafi þau íhugað að fara í þungunarrof. „Hún var með pillurnar í höndunum. Ef hún tæki þær þá væri barnið farið,“ sagði West.
West og Kardashian ákváðu þó ekki að láta rjúfa meðgönguna og eignuðust sitt fyrsta barn, North litlu. Í dag eiga þau fjögur börn saman.
West býður sig nú fram til forseta Bandaríkjanna. Í viðtali við Forbes fyrr í júlí sagðist hann ekki vera hlynntur þungunarrofi. Á fundinum um helgina sagðist hann ekki alfarið vera á móti þungunarrofi en að konur sem íhuguðu að láta rjúfa meðgönguna ættu að fá mikinn stuðning frá heilbrigðiskerfinu og hinu opinbera.
Á einum tímapunkti á framboðsfundinum sagði hann að þungunarrof ætti alltaf að vera löglegt. West talaði lengi um þungunarrof og rétt kvenna til að hafa ákvörðunarrétt yfir eigin líkama.