Kanye West segir í nýjum twitterskrifum sínum að hann sé búinn að reyna að skilja við Kim Kardashian síðan hún átti fund með rapparanum Meek Mill á Waldorf-hótelinu. Hann segir að hún hafi farið yfir strikið með því að hitta hann og ræða um fangelsis- og betrunarmál.
Þá uppnefnir hann tengdamóður sína Kris Jenner sem Kris Jong-Un og vísar þar til leiðtoga Norður-Kóreu. Auk þess sakar hann þær mæðgur um að vera hvítir kynþáttahyggjumenn og minnist aftur á að þær hafi reynt að svipta hann sjálfræði og loka inni á sjúkrahúsi.
Athygli vekur að tístum hans er jafnóðum eytt en fjölmiðlar hafa birt skjáskot af þeim.
Heimildarmenn segja Kardashian-fjölskylduna vera áhyggjufulla. Þau séu að reyna að finna bestu leiðina út úr þessari hringiðu. West er hins vegar sagður hafa lokað sig af á búgarði sínum í Wyoming og hleypa engum að sem hann treystir ekki.