Sneri aftur eftir ferð til handanheima

„Titill plötunnar vísar í gríska goðafræði, í ferjumanninn sem flutti …
„Titill plötunnar vísar í gríska goðafræði, í ferjumanninn sem flutti látna yfir fljótið Akkeron í undirheimana,“ segir Rúnar, sem er þakklátur ferjumanninum fyrir að hafa snúið við með sig í átt til lífs eftir hjartastopp. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ný plata tónlistarmannsins Rúnars Þórissonar byggir á þeirri ógleymanlegri reynslu hans að hafa farið í hjartastopp eftir sjósund í Nauthólsvík og verið í dái í á annan sólarhring. Hún ber titilinn Ferjumaðurinn.

Rúnar segir frá því að hann hafi byrjað að vinna að nýrri plötu árið 2016 og verið langt kominn með hana þegar hinn örlagaríki 18. nóvember 2019 rann upp. Hann var þá búinn að semja um helminginn af textunum á plötuna.

„Eitt lagið fjallaði um orðræðuna á vefmiðlunum, þar sem við látum allt flakka án ábyrgðar. Í öðrum texta fjallaði ég um andlega vanlíðan þeirra sem eiga við sálar- og geðvanda að stríða. Um það hvernig manneskjan þarf að takast á við ýmis verkefni í sínu hversdagslega lífi og hvernig veröldin mætir henni oft svo köld og tóm. Maðurinn getur verið svo einn í þessari veröld. Þá er gott að eiga góðan vin. Í það minnsta er víst að geðheilbrigðiskerfið á Íslandi er ekki nándar nærri gott í að takast á við vandann og þung og sársaukafull eru skref þeirra sem þurfa að leita sér aðstoðar eða þurfa á eftirfylgni að halda.“

Enn annar lagatextinn fjallaði um umhverfis- og loftslagsmál, það hvernig við komum fram við jörðina. „Um græðgi okkar sem lifum í dag og hvernig það að vilja hrifsa allt til sín í eigin tilvist yfirgnæfir algjörlega umhyggju og tillit til komandi kynslóða. Hver og einn verður að spyrja sig, „Hvað get ég gert?““ Tónlistarmaðurinn var sem sagt með hugann við ýmis mikilvæg málefni í textagerðinni þegar hér kemur við sögu.

Stjörnuspáin vakti athygli

Rúnar hefur stundað sjósund frá árinu 2016 og segir allt hafa gengið mjög vel þar til í nóvember í fyrra. Hann hefur meðal annars synt frá Kársnesi yfir í Nauthólsvík.

„18. nóvember síðastliðinn syndi ég í um það bil tíu mínútur. Sjórinn var um þrjár gráður.“ Rúnar hefur reynslu af því að synda í sjónum þegar hann hefur verið rétt undir frostmarki. „Svo ég hefði átt að þola þetta að öllu jöfnu.“ Þegar upp úr sjónum var komið hneig Rúnar hins vegar niður og fór í hjartastopp.

Rúnar segist ekki trúa mikið á stjörnuspá en stjörnuspáin þennan dag hefur þó vakið athygli hans.

Þar segir: ,,Eitthvað alveg óvænt gerist, kannski ekki endilega jákvætt í fyrstu en verður þó til þess að þú munt standa á óvæntum tímamótum. Ný og spennandi tækifæri gefast og þú gleðst yfir góðum fréttum. Happadagur 18. nóvember.“

Hann segist, hálfkíminn, hafa verið rosalega heppinn þennan dag. „Ég var dáinn í að minnsta kosti eina mínútu. Margir hafa spurt mig hvernig hafi verið þarna hinum megin.“

Þrátt fyrir að Rúnar eigi auðvelt með að segja frá þessu í gamansömum tón var þetta auðvitað erfið lífsreynsla. „Þetta var mikið áfall fyrir alla í kringum mig. Ég var svo kaldur. Líkamshitinn var kominn niður í 31 gráðu svo það þurfti að hífa mig upp í 34 gráður. Ég var í dái í kringum 35 klukkustundir.“

Ævinlega þakklátur

Rúnar náði sér þó vel á strik og hann bætir því við að hann sé fólkinu sem statt var í Nauthólsvík þennan dag ævinlega þakklátur. Auk tveggja vina hans sem syntu með honum nefnir hann bresk hjón sem af tilviljun voru stödd í pottinum. „Maðurinn er sérstaklega menntaður í að taka á svona verkefnum og starfar við það að fara á staði þar sem fólk lendir í óvæntum slysum. Konan hans er líka hjúkrunarkona. Það hjálpaði mér rosalega að þau væru stödd þarna.“

Rúnar hefur haldið sambandi við þau síðan. „Ég hef fengið sendar myndir af fjölskyldunni og er í sambandi við þau.“

Hann nefnir einnig að hann sé óendanlega þakklátur starfsfólkinu í Nauthólsvík, sem er þjálfað í að takast á við aðstæður sem þessar.

„Ég hef tekið þessu létt og er hress, bjartsýnn og glaður og get fagnað því að ekkert er að hjartanu né æðakerfinu, það var bara kælingin sem fór með mig þessa leið. En auðvitað var líka erfitt að ganga í gegnum þetta. Sárast í þessu var að horfa á fólkið sitt á þessum tíma og vita af því að því liði ekki vel, að vita af tárum þeirra sem elska og óttast það að missa. Það er versta upplifunin en það grær eins og annað.“

Við þessa lífsreynslu segir Rúnar alla textagerð hafa tekið algjöra kúvendingu. „Allt snerist um þetta í textagerðinni.“ Textar um loftslagsmál, geðheilbrigði og orðræðu á netinu fengu að víkja fyrir vangaveltum um mörk lífs og dauða og frásögnum af þessari reynslu. „Titill plötunnar, Ferjumaðurinn, vísar í gríska goðafræði, í ferjumanninn sem flutti látna yfir fljótið Akkeron í undirheimana. Af einhverjum ástæðum sneri hann til baka með mig og ég er gífurlega þakklátur fyrir það.“

Melankólían aldrei langt undan

Konseptið er mér mjög mikilvægt í textum og þarna fékk ég bara konsept upp í hendurnar. Í textagerð hef ég verið mikið að pæla í verund fólks, hvernig við lifum og tengjumst.“ Með tónlistinni vill hann brúa bilið á milli kynslóða, vakta strauma í tíma og rúmi. „Þá hefur melankólían aldrei verið langt undan.“

Rúnar hafði gefið út fjórar sólóplötur áður en Ferjumaðurinn kom út. „Ég held það sé ákveðinn þráður í gegnum þær allar, bæði músíklega og textalega.“ Hann gaf árið 2015 út plötuna Ólundardýr. Ég vann hana þannig að ég gerði eitt lag á mánuði í næstum heilt ár. Þá varð ég að klára texta, lag og útsetja og taka upp fyrir hvern og einn mánuð og gaf lagið svo út á vefnum. Það var mikil áskorun. Ég var eins og undin tuska eftir það og bjóst ekki við að ég myndi fara í þessa plötu strax. Ég ætlaði mér að fara í allt öðruvísi tónlist, útsetja fyrir strengi og vinna í rólegri tónlist. En svo varð þetta ofan á og ég byrjaði bara strax að semja.“

Rúnar hefur fengið ýmsa færa tónlistarmenn til liðs við sig við gerð plötunnar. „Ég nýt þess rosalega að hafa gott fólk í kringum mig í músíkinni.“ Arnar Þór Gíslason spilar á trommur, Guðni Finnsson á bassa og Tómas Jónsson á hljómborð. Sjálfur sér Rúnar um söng og gítar- og hljómborðsleik. „Svo hafa dætur mínar, Lára og Margrét, sungið og raddað með mér. Það er alveg yndislegt. Gæti ekki verið betra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach