Olivia de Havilland, ein síðasta stjarnan frá gullöld Hollywood, er látin 104 ára að aldri.
Ferill de Havilland spannaði meira en 50 ár og lék hún í um 50 kvikmyndum, þar á meðal Gone With the Wind sem kom út árið 1939 en fyrir leik sinn í myndinni hlaut hún eina af fimm tilnefningum sínum til Óskarsverðlauna.
De Havilland var fædd í Tókíó í Japan, en ólst upp í Kaliforníu. Faðir hennar var breskur en móðir bandarísk. Hún fluttist til Parísar árið 1960 og bjó þar til dánardags en fyrir andlát var hún elsti Óskarsverðlaunahafinn á lífi.
Fyrsta kvikmynd De Havilland var myndin Captain Blood, en þar lék hún aðalhlutverk ásamt Errol Flynn. Hún hlaut Óskarsverðlaunin árið 1946 fyrir hlutverk sitt í myndinni To Each His Own árið 1946 og svo aftur árið 1949 fyrir leik í myndinni The Heiress.
Utan hvíta tjaldsins barðist hún við kvikmyndaver á þeim tíma sem þau höfðu ægivald yfir leikurum. Með stuðningi verkalýðsfélagsins Screen Actors Guild átti hún í málaferlum við Warner Brothers árið 1943 þegar fyrirtækið hafði lengt í samningi hennar sem refsingu fyrir að hafna hlutverkum. Hæstiréttur Kaliforníu úrskurðaði henni í vil í máli sem síðar átti eftir að verða þekkt sem De Havilland-reglan en þar með var losað um tök kvikmyndavera á leikurum sínum.
De Havilland var sæmd riddaratign í Bretlandi árið 2017 og er síðar þekkt sem Dame Olivia Mary de Havilland þar í landi.