Kim Kardashian fór til Wyoming á mánudaginn þar sem hún hitti eiginmann sinn, tónlistarmanninn Kanye West, en hann hefur haldið til á búgarði þeirra hjóna síðustu vikur. West glímir við geðhvörf og hefur verið yfirlýsingaglaður um einkalíf þeirra síðustu daga en hann bað eiginkonu sína opinberlega afsökunar um helgina. Myndir af tilfinningaþrungnum fundi stjörnuhjónanna birtust á vef TMZ.
Þetta var í fyrsta skipti sem hjónin hittast síðan kosningafundur West fór fram á sunnudaginn fyrir viku. West, sem kynnti framboð til forseta Bandaríkjanna fyrr í júlí, opinberaði að þau hjónin hefðu íhugað þungunarrof þegar Kardashian varð ólétt í fyrsta sinn. Í síðustu viku fór hann mikinn á Twitter og greindi meðal annars frá því að eiginkona sín vildi láta loka sig inni.
Hjónin fóru á skyndibitastað í heimsókn Kardashian. Þau virtust ekki sérstaklega glöð á myndunum. Þau voru bæði í símanum á einni mynd og á annarri er Kardashian grátandi. Myndirnar segja þó að sjálfsögðu ekki alla söguna.
Heimildarmaður People segir að um leið og Kardashian kom að búgarðinum hafi þau farið út í bíl. Einnig kemur fram að Kardashian hafi grátið mikið. „Hún er mjög viðkvæm gagnvart öllu og uppgefin. Hún er sár út í Kanye. Hún hefur reynt að ná í hann mörgum sinnum og hann hunsar hana alltaf. Þetta er mjög slæm staða,“ sagði heimildarmaðurinn og bætti við að Kardashian hefði ákveðið að fljúga til Wyoming þar sem hún vildi ekki láta hunsa sig lengur.