Breski leikarinn Ben Cross er látinn 72 ára að aldri. Cross var hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk íþróttastjörnunnar Harolds Abrahams í kvikmyndinni Chariots of Fire.
Samkvæmt heimildum BBC lést Cross skyndilega eftir stutt veikindi. Lauren, dóttir leikarans, sagði í færslu sinni á Facebook að hún væri miður sín yfir andláti föður síns. Hún sagði auk þess í færslu sinni að hann hefði verið veikur í nokkurn tíma en hrakað hratt síðustu vikuna.
Cross fór með hlutverk í fyrstu míníseríunni sem sjónvarpsstöðin HBO framleiddi, The Far Pavilions árið 1984, og hryllingsseríunni Dark Shadows.
Hann lauk nýverið við tökur á hryllingsmyndinni The Devils Light og seinna á árinu kemur út kvikmyndin Last Letter From Your Lover, sem Cross fór með hlutverk í.