Bandaríska leikkonan Lori Loughlin, þekkt fyrir leik sinn í gamanþáttunum Full House, hefur verið dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir þátt sinn í háskólasvindlsmálinu svokallaða.
Eiginmaður hennar, Mossimo Giannulli, hlaut fimm mánaða dóm.
Í maí viðurkenndu þau að hafa tekið þátt í svindli sem snerist um að tryggja dætrum þeirra pláss í háskólanum í Suður-Kaliforníu með ólögmætum hætti.
„Ég tók hræðilega ákvörðun,“ sagði Loughlin.
Hún þarf jafnframt að greiða 150 þúsund bandaríkjadali í sekt og inna af hendi 100 klukkustunda samfélagsþjónustu. Giannulli þarf að borga 250 þúsund dali og inna af hendi 250 klukkustunda samfélagsþjónustu, að sögn BBC.