Ástarbréf til Kantors

Úr leikhúsgjörningnum Ég kem alltaf aftur sem Reykjavík Ensemble sýnir …
Úr leikhúsgjörningnum Ég kem alltaf aftur sem Reykjavík Ensemble sýnir í Iðnó um helgina.

„Þetta er óður og samtal við meistara Kantor. Í raun mætti lýsa þessum leikhúsgjörningi sem ástarbréfi til Kantors. Mér fannst ég skulda honum svar frá því hann opnaði mér nýja sýn inn í leikhúsheiminn fyrir 30 árum,“ segir Pálína Jónsdóttir, leikstjóri og listrænn stjórnandi alþjóðlega leikfélagsins Reykjavík Ensemble, sem sýnir leikhúsgjörninginn Ég kem alltaf aftur í Klúbbi Listahátíðar í Reykjavík í Iðnó á laugardag og sunnudag kl. 16 og 18 báða daga.

Meistari Kantor er pólski leikhúshöfundurinn Tadeusz Kantor sem var gestur Listahátíðar fyrir 30 árum með framúrstefnuleikhópi sínum Cricot2 þar sem þau sýndu I Shall Never Return. „Sú sýning var kveðjusýning hans því hann lést síðar sama ár, þá 75 ára að aldri. Kantor er einn af stærstu leikhúsmeisturum 20. aldar í framúrstefnuleikhúsi. Hann öðlaðist sína heimfrægð eftir að hann stofnaði leikhópinn Cricot2 þar sem hann var að vinna með alls kyns listamönnum, ekki síst myndlistarfólki. Sjálfur var Kantor myndlistarmaður í grunninn sem framan af sínum ferli vann við leikmyndagerð ásamt því að vera prófessor,“ segir Pálína og tekur fram að Kantor hafi verið meiriháttar áhrifavaldur í hennar lífi.

Pálína Jónsdóttir, stjórnandi Reykjavík Ensemble og Ewa Marcinek samstarfskona tóku …
Pálína Jónsdóttir, stjórnandi Reykjavík Ensemble og Ewa Marcinek samstarfskona tóku við styrk sem Listhópur Reykjavíkur.

Spurð nánar hvað í uppfærslu Kantors á sínum tíma hafi haft svona mikil áhrif á hana segir Pálína: „Heimurinn allur sem blasti við á sviðinu var að öllu leyti mjög framandi, sérlega myndrænn, absúrd og dularfullur. Fagurfræðin var nýstárleg fyrir mér og heildarsamsetningin sem hann bauð upp á bjó um sig varanlega í sálinni á mér. Sýningin var leikin á pólsku sem ég skildi ekki orð í. Ég skildi þannig sýninguna ekki vitrænt, heldur hreyfði hún við mér tilfinningalega. Það var eins og að horfa inn í sálina á stríðshrjáðu fólki. Sjálf er ég líka sannfærð um að það þurfi að nálgast svona leikhús meira út frá dulvitundinni,“ segir Pálína og bendir á að verk Kantors hafi almennt ekki einkennst af rökrænni framvindu.

Útkoman er fullkomin óvissa

„Með því að blanda póstmódernískum hugmyndum myndlistarinnar saman við performans og nota orð eins og hluti bjó hann til nýtt leikhúsform með nálgunaraðferðum sem ekkert dogma er til um, enda var hann lengi að brjóta heilann um leiklistargjörninga sína. Leikhús hans var ekki leikbókmenntaleikhús þar sem fylgt er klassískum strúktúr í frásagnarforminu,“ segir Pálína.

„Kantor bjó til leikhús úr minningum og var mikið að sviðsetja áfallasögu sína og sinnar þjóðar, en hann fæddist 1915 og upplifði tvær heimsstyrjaldir á ævi sinni. Áfallasaga Pólverja er mjög löng, en þeir voru undir stjórn annarra ríkja í yfir 200 ár. Þetta pólska minni er mjög sterkt DNA sem gengur aftur kynslóð fram af kynslóð og hefur áhrif allt til dagsins í dag,“ segir Pálína og tekur fram að þátttakendur verksins hennar séu allir á þrítugs- og fertugsaldri. „Þau hafa upplifað miklar breytingar og erfa jafnframt sögu sinna foreldra og ömmu og afa. Við söfnuðum saman þeirra upplifunum, minningum og sameiginlegri dulvitund sem ég reyni síðan að koma í form. Við erum í ferli enda unnið að því að sviðsetja efniviðinn með öllu sem leikhúsi fylgir í þann stutta tíma sem við höfum verið með yfirtöku í Iðnó. Sköpunargleðin og hugrekkið er hér haft að leiðarljósi. Ég er að reyna að búa til tragískan farsa á svipstundu svo hér er reynt að gera hið ómögulega mögulegt. Útkoman er fullkomin óvissa,“ segir Pálína og áréttar að um sé að ræða verk í vinnslu.

Pálína leggur áherslu á að þó leikhúsgjörningur hennar sé innblásinn af Kantor sé um algjörlega sjálfstætt samsköpunarverk að ræða sem hún hafi unnið í samvinnu við hóp pólskra listamanna sem búa og starfa hér á landi. Þetta eru þau Adam Switała, Ewa Marcinek, Magdalena Tworek, Mao Alheimsdóttir, Karolina Bogusławska, Robert Zadorozny og Wiola Ujazdowska. „Þau hafa búið hér á landi og starfað í þrjú til 20 ár og tala öll íslensku. Verkið er leikið á íslensku, pólsku, ensku og þýsku, en Jördis Richter kemur frá Þýskalandi. Pólskt leikhúslistafólk er einstaklega hæfileikaríkt og það er blessun fyrir Ísland að það sé komið hingað til að búa og starfa,“ segir Pálína sem stofnaði Reykjavík Ensemble í samstarfi við Ewu Marcinek, verkefnastjóra og rithöfund, með það að markmiði að búa til virkan atvinnuvettvang innan íslenskrar leiklistar fyrir fjölþjóðlega sviðslistamenn, óháð uppruna, kyni og tungumáli. „Markmiðið með Reykjavík Ensemble er að búa til vettvang fyrir okkur öll. Við erum ný samfélagsgerð og okkur hefur vantað alþjóðlegt leikhús, en nú er það komið.“

Iðnó dýrmætt menningarhús

Uppfærsla Reykjavík Ensemble á Ég kem alltaf aftur hlaut styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna covid-19, Listahátíð Reykjavíkur 2020 og Reykjavíkurborg. „Mér þykir ótrúlega vænt um að fá að sýna hér í Iðnó sem er elsta leikhúsið hér í borginni. Þetta er dýrmætt menningarhús, ekki síst fyrir sviðslistina. Og það væri mikil blessun fyrir frjálsu leiklistarsenuna að fá áframhaldandi afnot af húsinu.“

Þess má að lokum geta að aðgangur að viðburðinum er ókeypis. Vegna fjöldatakmarkana er miðaframboð takmarkað og áhorfendum bent á að panta miða fyrirfram á Facebook-síðu Reykjavík Ensemble. Pálína áréttar að viðburðurinn sé haldinn í samræmi við gildandi sóttvarnareglur og því verði tveggja metra reglan virt meðal áhorfenda í salnum. „Við höfum virt tveggja metra regluna á æfingum fram til þessa, en glöddumst mjög í vikunni þegar stjórnvöld ákváðu að leyfa snertingar á sviði frá og með föstudegi. Það eru stórkostlegar fréttir sem við munum aðlaga okkur að, því það leysir margt í sýningunni að þátttakendur megi snertast aftur,“ segir Pálína og tekur fram að gjörningurinn leiki á mærum leikhúss, gjörninga, myndlistar og tónlistar sem eru sömu leikhúslögmál og einkenndu verk Kantors.

Viðtalið við Pálínu birtist fyrst í Morgunblaðinu í dag, föstudaginn 28. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka