Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, gaf út í dag hljóðbókina Sögur handa Kára. Bókin kemur út á Storytel, Spotify og hlaðvarpi Apple. Í bókinni eru 34 sögur um fólk og viðburði á síðastliðnum 40 árum.
Ólafur segir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafi gefið sér hugmyndina. Í inngangi bókarinnar segir Ólafur að Kári hafi hringt í sig síðla kvölds á liðnu ári og leitað ráða í glímu sinni við kínversk yfirvöld.
„Á liðnu ári hringdi síminn síðla kvölds og óvænt reyndist Kári Stefánsson á línunni. Hann leitaði liðs í glímu sinni við kínversk yfirvöld, hafði þung orð um örlög sem biðu samstarfsmanns í því flókna landi. Ég reyndi að gefa honum ráð í þessum vanda vinar hans en vissi að þau myndu varla duga. Ákvað samt að segja honum nokkrar sögur um samskipti mín við Kínverja. Bæði til að létta honum lund og auka skilning á hve ungur nútíminn væri í Kína, að margra þúsalda menning væri enn að móta samfélagið,“ segir Ólafur.
Hann segir að í kjölfar sögustundarinnar hafi Kári hvatt hann til að varðveita þessar sögur af fólki og viðburðum.
„Á hátindi kórónuveirufaraldursins settist ég niður á hverjum morgni frá því seint í apríl fram í júní og skrifaði 34 sögur um heillandi fólk og viðburði á síðastliðnum 40 árum,“ skrifar Ólafur um bókina í færslu sinni á Twitter þar sem hann tilkynnir útgáfu hennar.
Hljóðbókina má nálgast á Storytel, Spotify og hlaðvarpsveitu Apple.