Að því er fram kemur í málsgögnum tónlistarkonunnar Britney Spears vill hún vera með lögráðamann. Nýjum gögnum í lögráðamáli hennar var skilað til dómara í Los Angeles í Bandaríkjunum á mánudaginn síðastliðinn.
Í gögnunum er að finna tilkynningu frá lögmanni hennar, Samuel Ingham III, þar sem hann segir hana vera sjálfviljuga með lögráðamann og tilnefnir fjármálafyrirtæki til þess að taka yfir fjármál hennar.
„Skjólstæðingur minn er sjálfviljug með lögráðamann. Hún óskar eftir því að fá að nýta rétt sinn til þess að tilnefna lögráðamann yfir eignum sínum,“ skrifaði Ingham III í málsgögnunum.
Spears hefur verið með lögráðamann síðan árið 2008 sem ber ábyrgð á öllum hennar málum, persónulegum og viðskiptatengdum. Faðir hennar, Jamie Spears, gegndi því hlutverki þar til í fyrra þegar hann steig tímabundið til hliðar vegna veikinda. Þá tók umboðsmaðurinn Jodi Montgomery við.
Spears óskaði eftir því í ágúst að breytingar yrðu gerðar á lögráðamannsmálum hennar og óskaði eftir að Montgomery tæki alfarið við. Enn fremur óskaði hún eftir því að fjármálafyrirtæki, banki eða sjóður, myndi sjá um fjármál hennar.
Aðdáendur Spears hafa lengi efast um að hún sé sjálfviljug með lögráðamann og hrintu af stað herferðinni #FreeBritney. Telja þeir að henni sé haldið fanginni.