„Þetta er frasi frá Birgi Andréssyni myndlistarmanni. Hann sagði þetta gjarnan þegar hann hafði útskýrt flókna hluti á sinn einstæða hátt,“ segir Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, um heiti á nýjum þætti sínum, „Svona er þetta“, sem fer í loftið kl. 9.05 á morgun, sunnudag.
Í þættinum er ætlunin að ræða við forvitnilegt fólk, stjórnmálamenn, fræðimenn, listamenn og aðra, sem hafa sérþekkingu á tilteknum málum eða búa að áhugaverðri reynslu.
„Hugmyndin er að fá viðmælandann hverju sinni til að segja hlustendum hvernig hlutirnir eru en um leið fáum við að kynnast honum sjálfum; hver hann er, hvaðan hann kemur og svo framvegis,“ segir Þröstur.
Þáttur Ævars Kjartanssonar, Samtal, var áður á dagskrá á þessum sama tíma og að sögn Þrastar er nýi þátturinn rökrétt framhald af honum. Ævar lét sem kunnugt er af störfum hjá Rás 1 um liðna helgi fyrir aldurs sakir.
„Ævar var lengi með þátt á sunnudagsmorgnum þar sem hann fjallaði um allt mögulegt og setti mál á dagskrá með því að ræða við sérfræðinga á hinum og þessum sviðum. Oftar en ekki tengdist umfjöllunin straumum og stefnum í samfélaginu. Söguleg, trúarleg og kirkjuleg málefni voru honum gjarnan hugleikin, eins menntamál, menning og ýmislegt fleira. Okkur fannst ástæða til að halda áfram á svipaðri braut og bjóða upp á umræðu um hugmyndaleg efni og samfélagsleg mál og freista þess að svara stærri spurningum.“
– Ævar Kjartansson er goðsögn í íslensku útvarpi. Hvernig leggst í þig að fara í hans stóru skó?
„Ég vona að ég lendi ekki í því að verða borinn saman við Ævar; það kæmi líklega ekki vel út fyrir nokkurn mann,“ svarar Þröstur hlæjandi. „Ég ætla bara að gera þetta á minn hátt og hlakka mikið til að byrja. Það er algjör draumastaða fyrir útvarpsmann að fá tækifæri til að spjalla við fólk sem veit hvað það syngur og hefur kafað ofan í tiltekið efni. Það getur orðið mjög skemmtilegt, bæði fyrir mig og vonandi hlustendur líka, að fá innsýn í fólk og fyrirbæri. Þátturinn er tæplega klukkustundar langur, þannig að gott svigrúm er til að kafa vel ofan í málin.“
Gestur Þrastar í fyrsta þættinum í dag verður Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur en hann gaf í sumar út bókina Neo-Nationalism: The Rise of Nativist Populism, sem fjallar um nýþjóðernishyggju og popúlisma í alþjóðlegu samhengi.
„Þetta er mjög heit umræða og nægir í því sambandi að nefna þjóðarleiðtoga eins og Trump, Pútín og Erdogan,“ segir Þröstur, „auk þess sem þessi þróun hefur átt sér stað í áratugi í nágrannalöndum okkar, bæði Danmörku og einnig Svíþjóð á allra seinustu árum. Við Eiríkur munum fara vítt og breitt yfir það svið en popúlistar hafa verið að styrkja stöðu sína víða á undanförnum árum og forvitnilegt að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á okkur.“
Nánar er rætt við Þröst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.