Bandaríski leikarinn og kvikmyndaframleiðandinn Tyler Perry er nýjasti milljarðamæringurinn í Hollywood samkvæmt mati Forbes. Í tímaritinu er fjallað um ævi leikarans sem ólst upp í fátækt í New Orleans í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum.
Í dag eru auðæfi hans metin á yfir einn milljarð Bandaríkjadala. Það sem hefur helst unnið með Perry er að hann á 100% hlut í öllum þeim kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og leikritum sem hann hefur framleitt. Efnið er metið á 320 milljónir Bandaríkjadala. Auk þess á hann stúdíó sem metið er á 280 milljónir Bandaríkjadala.
Í viðtali við Forbes sem birtist í gær lýsir Perry uppvexti sínum í New Orleans. Hann segist hafa alist upp við ofbeldisfullan föður sem hann komst svo að seinna að var ekki raunverulegur faðir hans.
Hinn 51 árs gamli Perry hefur komið að framleiðslu 1.200 sjónvarpsþátta, 22 kvikmynda og að minnsta kosti 24 leikrita.