„Sá glæsilegasti frá upphafi“

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós.
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós. mbl.is/Árni Sæberg

„Vet­ur­inn fram und­an verður sá þétt­asti og glæsi­leg­asti frá upp­hafi,“ seg­ir Friðrik Friðriks­son, fram­kvæmda­stjóri Tjarn­ar­bíós, um kom­andi starfs­ár. Læt­ur hann eng­an bil­bug á sér finna þrátt fyr­ir kófið sem haft hef­ur veru­leg áhrif á menn­ing­ar­lífið hér­lend­is síðustu mánuði.

„Við vor­um búin að aug­lýsa eft­ir og velja margt gott úr inn­send­um um­sókn­um áður en kófið brast á og ljóst var að nokk­ur verk­efni síðasta vors myndu fær­ast til næsta leik­árs,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að skipu­lags­breyt­ing­ar inn­an­húss hafi opnað fyr­ir að hægt væri að sýna fleiri verk en áður á ein­um vetri. „Við höf­um þannig stytt æf­inga­tím­ann inni á sviðinu sjálfu ör­lítið, en lengt hann í staðinn í æf­inga­rým­inu,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að skipu­lagið sé vissu­lega háð því að kófið valdi ekki enn meiri rösk­un en orðið er.

Friðrik bend­ir á að venju sam­kvæmt sé áhersla lögð á ný ís­lensk verk auk þess sem mark­miðið sé að bjóða upp á mikla breidd með verk­um sem spanna allt frá hefðbundn­ari list­form­um til nýrra forma. „Á kom­andi leik­ári verða alls 18 verk frum­sýnd, þar af 17 ný verk,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að all­ir eigi að geta fundið eitt­hvað við sitt hæfi, því í vet­ur verður boðið upp á fimm barna­verk, fimm leik­rit, þrjú dans­verk, tvö spuna­verk, tvö óperu­verk og eitt sirku­s­verk.

Treysta á stuðning borg­ar­inn­ar

„Leik­árið hófst í raun í byrj­un ág­úst með kynseg­in sviðsupp­færslu á ljóðabálk­in­um Mal­ara­stúlk­unni fögru eft­ir Franz Schubert við ljóð Wil­helms Müllers. Þar skoðuðu ten­ór­inn Sveinn Dúa Hjör­leifs­son og leik­stjór­inn Gréta Krist­ín Ómars­dótt­ir bálk­inn í ljósi sjálfs­upp­götv­un­ar og kyntján­ing­ar,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að vegna sam­komutak­mark­ana hafi aðeins ör­fá­ir miðar verið í boði og því sé ánægju­legt að geta boðið upp á auka­sýn­ingu 5. sept­em­ber.

„Meðan tveggja metra regl­an er í gildi höf­um við aðeins getað selt 40-50 miða í 180 manna sal, sem þýðir um 20-25% sæta­nýt­ingu sem geng­ur auðvitað ekki upp til lengd­ar í ljósi þess að miðasölu­tekj­ur standa und­ir 60% af rekstr­in­um,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að vegna kófs­ins hafi Reykja­vík­ur­borg í vor sem leið fært fjár­muni frá haust­inu til vors­ins til að bjarga mál­um tíma­bundið. „Við bind­um von­ir við að borg­in leggi okk­ur lið fjár­hags­lega ef kófið set­ur aft­ur strik í reikn­ing­inn.“

Verk um stöðu flótta­barna

Næsta frum­sýn­ing verður í dag, laug­ar­dag, þegar barna­sýn­ing­in Tréð eft­ir Agnesi Wild og Söru Martí í leik­stjórn höf­und­ar verður frum­sýnd. „Þetta er mjög fal­legt verk úr smiðju Lala­lab, unnið í sam­starfi við Lista­hátíð í Reykja­vík, sem fjall­ar á mynd­ræn­an hátt um veru­leika og stöðu flótta­barna,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að tveir leik­ar­ar miðla sög­unni með aðstoð mynd­varpa og um 200 brúður úr smiðju El­ín­ar Elísa­bet­ar Ein­ars­dótt­ur.

Á morg­un, sunnu­dag, er frum­sýnd óper­an Ekk­ert er sorg­legra en mann­eskj­an eft­ir tón­skáldið Friðrik Mar­grét­ar-Guðmunds­son við texta Ad­olfs Smára Unn­ars­son­ar sem jafn­framt leik­stýr­ir. „Þetta er flott­ur hóp­ur ný­út­skrifaðra lista­manna af sviðshöf­unda­braut Lista­há­skóla Íslands. Þetta er metnaðarfullt, spenn­andi og flott verk sem fjall­ar um fjór­ar fíg­úr­ur sem ráfa um á sviði í leit að merk­ingu. Þau eru að hluta inn­blás­in af skrif­um Dan­tes um hel­víti og limbóinu milli heimanna tveggja,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að sýn­ing­ar­tím­inn verði knapp­ur þar sem þátt­tak­end­ur séu á leið í fram­halds­nám er­lend­is.

Um miðjan sept­em­ber hefjast á ný sýn­ing­ar leik­hóps­ins Reykja­vík En­semble á Pol­is­hing Ice­land eft­ir Ewu Marc­inek í leik­stjórn Pálínu Jóns­dótt­ur. „Þau rétt náðu að frum­sýna þessa sýn­ingu í mars en svo kom sam­komu­bann og skellt var í lás. Þetta er flott sýn­ing sem fjall­ar um unga konu sem flýr ákveðið ástand í Póllandi og reyn­ir að fóta sig í skrýtnu um­hverfi hér­lend­is,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að sýn­ing­in tali jafnt til Íslend­inga og Pól­verja. „Sýn­ing­in er leik­in á pólsku, ís­lensku og ensku,“ seg­ir Friðrik.

Kvennatví­leik­ur um Sun­nefu

Lalli og töframaður­inn nefn­ist sýn­ing sem frum­sýnd verður 26. sept­em­ber. „Þetta er hugsað sem fræðandi, töfr­andi en um­fram allt skemmti­leg fjöl­skyldu­sýn­ing sem veit­ir ein­staka inn­sýn í leynd­ar­mál og töfra leik­húss­ins,“ seg­ir Friðrik. Höf­und­ar verks­ins eru Lár­us Blön­dal Guðjóns­son og Ari Freyr Ísfeld Óskars­son, sem jafn­framt leik­stýr­ir.

Sun­nefa nefn­ist verk eft­ir Árna Friðriks­son í sam­starfi við leik­hóp­inn Svipi í leik­stjórn Þórs Tul­inius sem frum­sýnt verður 10. októ­ber. „Um er að ræða kvennatví­leik þar sem leik­kon­urn­ar Tinna Sverr­is­dótt­ir og Mar­grét Krist­ín Sig­urðardótt­ir, bet­ur þekkt sem Fabúla, segja sögu Sun­nefu Jóns­dótt­ur sem tví­veg­is var dæmd til drekk­ing­ar snemma á 18. öld,“ seg­ir Friðrik og rifjar upp að Sun­nefa var sögð hafa eign­ast börn með yngri bróður sín­um fyrst þegar hún var 16 ára og síðan 18 ára. Á Þing­völl­um 1743 neitaði hún hins veg­ar sök og sagði að faðir seinna barns­ins væri sýslumaður­inn sem dæmdi hana til dauða. „Þau frum­sýna verkið í Slát­ur­hús­inu á Eg­ils­stöðum nú í sept­em­ber og koma síðan suður til að sýna,“ seg­ir Friðrik.

Co za poroni­ony pomysł sem þýða mætti sem Úff, hvað þetta er slæm hug­mynd! nefn­ist sýn­ing eft­ir Jakub Ziemann, Al­ek­söndru Skolozynska og Ólaf Ásgeirs­son sem frum­sýnd verður 15. októ­ber. „Jakub er kokk­ur á veit­ingastaðnum Skál, Al­eks­andra er spuna­leik­kona frá Var­sjá og Ólaf­ur er ís­lensk­ur leik­ari sem er að læra pólsku á duolingo. Þau munu sam­eina krafta sína á sviði Tjarn­ar­bíós og búa til skemmti­lega kvöld­stund á pólsku,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að sér­lega ánægju­legt sé að geta sinnt þeim mikla fjölda Pól­verja sem hér búa og starfa.

Verk Nr. 2 eft­ir Stein­unni Ket­ils­dótt­ur verður frum­sýnt á Reykja­vík Dance Festi­val í haust. „Um er að ræða þriðja verkið í röð verka sem spretta upp af rann­sókn­ar­verk­efn­inu „Expressi­ons: the power and politics of expectati­ons in dance“ sem Stein­unn leiðir í sam­starfi við hóp lista- og fræðimanna,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að Stein­unn sé einnig höf­und­ur dans­verks­ins Practice Per­for­med sem sýnt verði á Vor­blóti Tjarn­ar­bíós vorið 2021 og einnig teng­ist fyrr­nefndu rann­sókn­ar­verk­efni. „Practice Per­for­med er dans­verk sem skapað er í raun­tíma,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að vegna kófs­ins hafi Vor­blótið fallið niður síðasta vor en ráðgert var að frum­sýna Verk Nr. 2 á því.

Jóla­æv­in­týri Þorra og Þuru eft­ir Agnesi Wild og Sigrúnu Harðardótt­ur í leik­stjórn Söru Martí Guðmunds­dótt­ur verður tekið aft­ur til sýn­ing­ar frá og með 29. nóv­em­ber, en sýn­ing­in var frum­sýnd í Tjarn­ar­bíói fyr­ir síðustu jól. „Svo skemmti­lega vill til að jóla­álfarn­ir Þorri og Þura verða einnig á dag­skrá RÚV fyr­ir jól­in,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að Þorri og Þura sé nýja jóla­sýn­ing Tjarn­ar­bíós eft­ir að Fel­ix Bergs­son lagði Ævin­týr­inu um Auga­stein end­an­lega.

Spuna­hóp­ur­inn Svan­ur­inn sýn­ir jóla­sýn­ingu sína 17. og 18. des­em­ber. „Þetta er sjötta árið í röð sem Svan­ur­inn stend­ur fyr­ir jóla­sýn­ingu. Fyr­ir marga er þetta orðinn fast­ur hluti af aðvent­unni,“ seg­ir Friðrik, en meðal meðlima Svans­ins eru Ad­olf Smári Unn­ars­son, Guðmund­ur Felix­son og Pálmi Freyr Hauks­son.

Reyna að bjarga heim­in­um

Fyrsta frum­sýn­ing á nýju ári verður upp­færsla Leik­hóps­ins Lottu á Mjall­hvíti eft­ir Önnu Berg­ljótu Thor­ar­en­sen. „Verkið bygg­ist á hinni klass­ísku sögu um prins­ess­una fögru sem flýr stjúp­móður sína og leit­ar skjóls hjá dverg­um. Eins og Lottu er von og vísa er sag­an þó nokkuð breytt og mega aðdá­end­ur Lottu jafn­vel bú­ast við ein­hverj­um upp­færsl­um á tíu ára gömlu sýn­ing­unni,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að sýn­ing­ar Lottu séu þær fjöl­sótt­ustu í Tjarn­ar­bíói. Tek­ur hann fram að Lotta muni að vanda ferðast um landið með Mjall­hvíti.

Loka­sýn­ing­in nefn­ist nýj­asta afurð Sóma þjóðar sem frum­sýnd verður í fe­brú­ar. „Sómi þjóðar eru Hilm­ir Jens­son og Tryggvi Gunn­ars­son sem hér í hús­inu hafa meðal ann­ars sett upp SOL og MP5,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að upp­gang­ur fas­ism­ans og yf­ir­vof­andi heimsend­ir sé til um­fjöll­un­ar í nýj­ustu sýn­ingu hóps­ins. „Í Loka­sýn­ingu ætla fimm lista­menn Sóma þjóðar að bjarga heim­in­um á einni kvöld­stund, í einni ör­vænt­ing­ar­fullri at­rennu, með öll­um til­tæk­um ráðum,“ seg­ir Friðrik leynd­ar­dóms­full­ur.

Annað dóms­dags­verk er upp­færsla leik­hóps­ins Tabúla Rasa á The Last kvöld­máltíð eft­ir Kolfinnu Nikulás­dótt­ur í leik­stjórn Önnu Maríu Tóm­as­dótt­ur sem frum­sýnd verður vorið 2021. „Verkið ger­ist í heimsenda­ástandi þar sem síðasta fjöl­skyld­an sem eft­ir er í Reykja­vík held­ur mik­il­feng­lega veislu í yf­ir­gef­inni sund­laug í til­efni af 17. júní. Þrátt fyr­ir að heim­ur­inn sé við það að far­ast er fjöl­skyld­an staðráðin í að heiðra gaml­ar hefðir sam­fé­lags­ins sem þau eitt sinn til­heyrðu.“

Hauk­ur og Lilja nefn­ist nýtt leik­verk eft­ir Elísa­betu Krist­ínu Jök­uls­dótt­ur sem frum­sýnt verður næsta vor. Með titil­hlut­verk­in fara Edda Björg Eyj­ólfs­dótt­ir og Sveinn Ólaf­ur Gunn­ars­son. „Þetta var upp­haf­lega stutt út­varps­verk sem er nú verið að þróa fyr­ir svið með spenn­andi hætti,“ seg­ir Friðrik.

Tengsl manns­ins við veðrið

Rof o.s.frv. nefn­ist nýtt dans­verk eft­ir Ingu Huld Há­kon­ar­dótt­ur sem frum­sýnt verður á Vor­blóti Tjarn­ar­bíós vorið 2021. „Þetta er verk sem skoðar ótta, þrá og skáld­skap í sam­bandi við óvissu í hreyf­ingu og hljóði,“ seg­ir Friðrik.

Mann­dýr nefn­ist þátt­töku­sýn­ing eft­ir Aude Bus­son fyr­ir fjöl­skyld­una sem frum­sýnd verður í haust fyr­ir skóla­börn en tek­in til al­mennra sýn­inga næsta vor. „Verkið sæk­ir inn­blást­ur í sög­una L'en­fant eft­ir Colas Gutman. Þar fer ung­ur strák­ur í sveita­ferð með for­eldr­um sín­um og týn­ist. Í fram­hald­inu hitt­ir strák­ur­inn kind sem spyr hann hvers kon­ar dýr hann sé og hvaða til­gangi hann þjóni, sem set­ur strák­inn í djúpa til­vist­ar­kreppu.“

Síðasta frum­sýn­ing vors­ins verður á Allra veðra von í upp­færslu sirku­slista­hóps­ins Hring­leiks og leik­stjórn Agnes­ar Wild, en sýn­ing­in er unn­in í sam­starfi við Miðnætti leik­hús. „Í upp­færsl­unni er sirku­slist­in notuð til að skoða tengsl manns­ins við veðrið,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að góð loft­hæð í Tjarn­ar­bíói henti vel fyr­ir sirk­us­sýn­ing­ar. „Hóp­ur­inn hyggst í fram­hald­inu sýna verkið víðs veg­ar um landið næsta sum­ar.“

Fram­sækni að leiðarljósi

Í kynn­ing­ar­efni frá Tjarn­ar­bíói er sér­stök at­hygli vak­in á því að ríf­lega 60% leik­stjóra eru kon­ur eða 11 af 18 leik­stjór­um og að kynja­skipt­ing annarra aðstand­enda sýn­inga sé nokkuð jöfn. Helm­ing­ur sýn­inga leik­árs­ins er sam­inn af kon­um, fimm af körl­um og fjór­ar af blönduðum hóp­um. Á síðustu árum hef­ur hlut­fall kynj­anna í hópi leik­stjóra og höf­unda verið hvað jafn­ast hjá sjálf­stæðu sen­unni og því ligg­ur beint við að spyrja Friðrik hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun þegar val­nefnd Tjarn­ar­bíós vel­ur sýn­ing­ar inn í húsið. „Ef við sæj­um að það hallaði veru­lega á annað kynið í verk­efn­un­um mynd­um við bregðast við því, en við höf­um enn ekki þurft þess,“ seg­ir Friðrik og bend­ir á að flest­ar þeirra sýn­inga sem sótt er um að fá að sýna í Tjarn­ar­bíói hafi áður fengið um­fjöll­un hjá sviðslistaráði, áður leik­list­ar­ráði, vegna styrk­umsókn­ar. Við út­hlut­un op­in­bers fjár eru kynjagler­aug­un sett upp, sem aft­ur hef­ur áhrif á þær um­sókn­ir sem við fáum,“ seg­ir Friðrik og bæt­ir við: „Í vali okk­ar á verk­efn­um horf­um við fyrst og fremst til áhorf­enda­hóps­ins, þ.e. hverj­um við erum að sinna, og fjöl­breytni sviðsverka með fram­sækni að leiðarljósi,“ seg­ir Friðrik og tek­ur fram að auk þess hafi áhersl­an alltaf verið mik­il á frumsköp­un. All­ar nán­ari upp­lýs­ing­ar um sýn­ing­ar árs­ins og korta­sölu eru á tjarn­ar­bio.is.

Viðtalið við Friðrik birt­ist fyrst í Morg­un­blaðinu fimmtu­dag­inn 3. sept­em­ber. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Meyja

Sign icon Það hefur ekkert upp á sig að stinga höfðinu í sandinn, vandamálin hverfa ekkert við það. Vertu vandlátur á val samstarfsmanna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Sofie Sar­en­brant
3
Unni Lindell
4
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Meyja

Sign icon Það hefur ekkert upp á sig að stinga höfðinu í sandinn, vandamálin hverfa ekkert við það. Vertu vandlátur á val samstarfsmanna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Sofie Sar­en­brant
3
Unni Lindell
4
Erla Sesselja Jens­dótt­ir