Á götum borgarinnar keyrir nú strætisvagn skreyttur með auglýsingu frá Kirkjunni. Á vagninum má finna mynd af Jesú Kristi með farða og brjóst. Auglýsingin er hluti af auglýsingaherferð Kirkjunnar fyrir starf sunnudagaskólans.
Myndir auglýsingaherferðarinnar hafa vakið athygli en fyrir helgi uppfærði Kirkjan forsíðumyndina sína á Facebook þar sem sjá mátti Jesú í þessum búningi.
„Við erum afar ánægð um útkomuna. Strætóinn er fallega myndskreyttur með myndmáli sem minnir okkur á umhverfisvernd, kærleika, fjölbreytileika og mannvirðingu. Um miðjan vagninn má finna þennan texta úr 1. Jóhannesarbréfi: „Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð.“ Það má segja að þessi ritningartexti sé þema myndmálsins. Svo gengur maður inn um gullna hliðið að aftan, þar sem stendur yfir hliðinu „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ og svo inn í fallega kirkju um miðjan vagninn,“ sagði Pétur G. Markan, samskiptastjóri Kirkjunnar, í samtali við mbl.is í dag.
„Á næstu dögum mun Kirkjan síðan setja upp síðu á kirkjan.is þar sem við bjóðum öllum að senda inn mynd eða texta þar sem viðkomandi getur túlkað sinn Krist. Myndirnar og textasmíðin munu síðan birtast á miðlum kirkjunnar.“